- +

Wellington - innbakað nautafillet

Innihald:
800 g vel verkað og fitusprengt nautafillet eða framfillet
400 g smjördeig
Smá olía til steikingar
Salt og pipar

Sveppa og laukmauk (duxelles):
1 stk stór laukur
200 g sveppir
100 g lifrarkæfa
1 dl brauðraspur
50 g smjör
Salt og pipar

Madeira sósa:
6 dl dökkt nautakjötsoð
1 dl Madeira
30 g hveiti
30 g smjör
Sósulitur

Aðferð:

Saxið laukinn og sveppina smátt og steikið upp úr smjörinu, stráið salti og pipar.  Setjið brauðraspinn út á og veltið vel saman með sleif, látið kólna. Merjið kæfuna saman við með sleif. 

 

Brúnið nautafilletið á öllum hliðum á snarpheitri pönnu, kryddið með salti og pipar, látið kólna. 

 

Fletjið smjördeigið út í 3mm þykkt, Dreifið hluta af maukinu á deigið á flöt sem er á stærð við kjötið.  Leggið kjötið ofan á og hyljið með restinni af maukinu.  Penslið brúnir deigsins með hrærðu eggi og brjótið deigið yfir þannig að það liggi þétt utan um kjötið.  Pressið brúnirnar saman með gaffli.  Penslið deigið að utan með egginu og gerið 2 smá göt ofan á deigið. 

 

Setjið í 200° heitan ofn og bakið í um 20 mín eða þar til steikarmælir sýnir 58° í kjarna. Takið steikina út og leyfið henni að jafna sig í 10 mínútur áður en hún er skorin.

 

Madeira sósa:
Setjið soð og Madeira í pott og þykkið með smjörbollunni, litið með sósulit, bragðbætið með salti og pipar.

Höfundur: Klúbbur matreiðslumeistara