- +

Hamborgari með piparostafyllingu

Hamborgarar
500 g vandað nautahakk
3 msk steinselja, söxuð
3 msk brauðmylsna
piparostur, skorinn í litla teninga, um 5-8 teningar í hvern borgara
1 msk dijon hunangssinnep
1 stk egg
sjávarsalt
piparostur, skorinn í þunnar sneiðar (ofan á steiktan hamborgarann)
snöggsteikt beikon, smátt saxað

Rauðlaukur í ediki - meðlæti
1 stk rauðlaukur, sneiddur örþunnt
1 msk hvítvíns- eða rauðvínsedik
1 tsk sykur
1 tsk salt

Annað meðlæti
majones
stór og rauður tómatur, skorinn í vænar sneiðar
ferskt og brakandi salat, ekki iceberg heldur meira grænt
rauðlaukur í þunnum sneiðum
súrar gúrkur, litlar og heilar, skornar í sneiðar endilangt
vönduð hamborgarabrauð

Aðferð:

Hamborgarar:
Hrærið allt hráefnið saman í hamborgarana. Mótið hamborgara í þeirri stærð sem þið kjósið og geymið í ísskáp í a.m.k. klukkustund áður en þeir eru steiktir eða grillaðir. Kjötið dugar í 4-6 hamborgara eftir því hvað fólk vill hafa þá þykka.

Steikið borgarana á pönnu, eða grillið, þar til þeir hafa lokað sér vel. Leggið á þá sneiðar af piparosti og smátt söxuðu beikoni. Stingið borgurunum í heitan ofn í nokkrar mínútur, eða þar til osturinn ofan á er mjúkur og passlega bráðinn og borgarinn eldaður að smekk hvers og eins.

Rauðlaukur í ediki - meðlæti:
Hrærið allt hráefnið saman og látið standa í a.m.k. klukkustund áður en laukurinn er settur á hamborgarann. Rauðlaukinn má líka bera fram á borgaranum án þess að fara þessa leiðina en hún skemmir ekki!

Samsetning:
Smyrjið brauðin með vönduðu majónesi. Leggið salatblað á neðra brauðið og væna tómatsneið ofan á, þá borgarann. Ofan á borgarann fer rauðlaukurinn, ofan á hann fara gúrkurnar og þá efra brauðið.

Höfundur: Halla Bára Gestsdóttir