- +

Fyllt lambalæri með ólífum og fetaosti

Lambalæri:
1 stk. meðalstórt lambalæri
nokkrir grillpinnar úr tré, bleyttir í 30 mín.

Fylling:
200 g Dalafeta í kryddolíu, frá MS
fínrifinn börkur af einni sítrónu
50 g steinlausar ólífur, helst grískar í olíu
4 stk. sólþurrkaðir tómatar, saxaðir
3 stk. hvítlauksgeirar, fínsaxaðir
1 handfylli spínat, grófsaxað
1 handfylli steinselja, söxuð
1 handfylli mynta, söxuð
salt og pipar
olía

Aðferð:

Handa 4-6

Úrbeinið lambalærið og fitusnyrtið það. Skerið niður inn með beini og forðist að skera stóra vöðva í sundur. Fletjið lærið svo út. Skerið grunna skurði í kjötið að innanverðu og nuddið vel með olíu, salti og pipar. Blandið öllu sem á að fara í fyllinguna saman í skál. Smyrjið henni svo á kjötið. Brjótið kjötið saman utan um fyllinguna og gætið þess að loka hana vel inni. Gott er að festa lærið saman með grillpinnum úr tré sem hafa verið lagðir í bleyti í a.m.k. 30. mín. Brjótið svo endann af pinnanum sem stendur út úr kjötinu. Penslið lærið með olíu og öðru hverju meðan á eldun stendur. Saltið og piprið. Grillið við óbeinan meðalhita á efri grindinni á grillinu í u.þ.b. 60 mín. Snúið kjötinu við og reynið að fá jafna steikingu á allar hliðar. Fjarlægið svo pinnana úr kjötinu áður en það er borið fram.

Höfundur: Inga Elsa Bergþórsdóttir