- +

Kjúklingabringur fylltar með fetaosti og sýrðum rjóma og ofnbakaðar í eplasafa

Innihald:
100 g fetakubbur
1 dl sýrður rjómi, hreinn eða með graslauk og hvítlauk
1 tsk timjan
4 stk kjúklingabringur
salt og svartur pipar
8 stk hráskinkusneiðar
tannstönglar eða rúllupylsuband
1 stk sítróna, skorin í átta sneiðar
1 dl eplasafi
2 msk ólífuolía
2 msk balsamikedik
2 msk hunang

Kartöflustappa með sýrðum rjóma, sveppum og parmesanosti
1 kg kartöflur, skrældar og skornar í bita
200 g sveppir, t.d. kastaníusveppir, gróft saxaðir
2 stk skallottulaukar, fínsaxaðir
1 msk smjör
2 dl sýrður rjómi
½ dl parmesanostur, fínrifinn
salt og svartur pipar

Dijonsinnepssósa
1 stk skallottulaukur, saxaður
2 msk smjör
2 msk hveiti
2 dl vatn
2 dl rjómi
2 msk niðursoðinn kjúklingakraftur
2 dl hvítvín
1½ msk dijonsinnep
salt og svartur pipar

Aðferð:

Fylltar kjúklingabringur

1. Stillið ofninn á 200°.

2. Stappið saman fetaosti, sýrðum rjóma og timjani.

3. Skerið djúpa vasa í kjúklingabringurnar, þerrið þær, saltið og piprið. Passið að salta ekki of mikið því skinkan og osturinn geta verið sölt.

4. Setjið fyllinguna jafnt í hvern vasa. Vefjið tveimur hráskinkusneiðum utan um hverja bringu og lokið með tannstönglum eða notið rúllupylsuband. Raðið tveimur sítrónusneiðum ofan á hverja bringu.

5. Takið fram eldfast fat og hellið í eplasafanum. Raðið kjúklingabringunum ofan í.

6. Pískið saman balsamikediki, ólífuolíu og hunangi og hellið yfir bringurnar.

7. Bakið í 20-25 mínútur eða þar til bringurnar eru eldaðar í gegn.

8. Látið standa stutta stund. Skerið í sneiðar og hellið safanum úr fatinu yfir. Berið fram með kartöflustöppu og dijonsinnepssósu (sjá uppskriftir hér að neðan).

 

Kartöflustappa með sýrðum rjóma, sveppum og parmesanosti

(Fyrir 4-6)

 

1. Sjóðið kartöflurnar í léttsöltu vatni þar til meyrar. Hellið vatninu af og setjið kartöflurnar aftur í pottinn og á helluna í smá stund, eða þar til allur vökvi hefur gufað upp. Stappið.
2. Steikið lauk og sveppi í smjöri og setjið saman við kartöflurnar.
3. Hrærið sýrðum rjóma og parmesanosti saman við. Smakkið til með pipar og salti.

Dijonsinnepssósa
(Fyrir 4)

1. Bræðið smjör í potti og steikið laukinn. Sáldrið hveitinu yfir. Hrærið. Setjið vatn, rjóma og kjúklingakraft saman við og pískið. Látið malla í 5 mínútur.
2. Setjið þá hvítvín og dijonsinnep saman við og látið suðuna koma upp og hitið í smá stund.
3. Smakkið til með salti og pipar.

Höfundur: Erna Sverrisdóttir