- +

Hægeldað lamb með þistilhjörtum og parmesanosti

Innihald:
1½ kg lambalæri eða annar góður biti af lambakjöti
salt og svartur pipar
30 stk. fersk myntulauf
60 g parmesanostur, skorinn í grófar sneiðar
180 g þistilhjörtu, marineruð í olíu
2 stk. hvítlauksrif, gróft skorin
3 msk. ólífuolía
2 bollar þurrt hvítvín
1¼ bolli vatn

Aðferð:

Hitið ofn í 150 gráður. Saltið og piprið kjötið. Athugið að hér er líka hægt að taka beinið úr lærinu og fletja kjötið út, setja fyllinguna inn í og rúlla upp. Það er rosa gott en stundum óþarfi, sérstaklega ef kjötið er haft lengi í ofninum.

 

Fyllingin samanstendur af myntu, osti, þistilhjörtum og hvítlauk. Þetta má fara inn í rúlluna ef lambið er unnið á þann hátt, annars er þessu dreift ofan í ofnpottinn allt í kring um kjötið.

 

Potturinn er hitaður á hellu, olíu hellt í pottinn og hún hituð. Lambið er steikt í heitri olíunni og brúnað á öllum hliðum. Tekið úr pottinum, víni hellt í pottinn þar sem vínandinn gufar upp en vökvinn losar um gott bragð og krydd í pottinum. Kjötið er sett í pottinn aftur og fyllingin allt í kring. Þá fer vatn í pottinn. Lokið pottinum.

 

Setjið pottinn í ofninn og leyfið lambinu að hægeldast á 150 gráðum í allt að fjóra tíma, fer að sjálfsögðu allt eftir stærð lærisins. Ef þið viljið taka stytri tíma í eldamennskuna hækkið þið bara hitann.

 

Berið fram með kartöflum að eigin vali, soðnu nýju grænmeti, steiktu spínati og góðu brauði til að ná upp safanum.  Verði ykkur að góðu! 

Höfundur: Halla Bára Gestsdóttir