- +

Bolognese sósa

Innihald:
5 msk. ólífuolía
2 stk. laukar, smátt skornir
2 stk. sellerístönglar, smátt skornir
4 stk. gulrætur, smátt skornar
10 stk. beikonsneiðar, smátt skornar
600 g nautahakk
400 g svínahakk
2 msk. tómatkraftur
3 dósir niðursoðnir tómatar
salt og chillipipar, í duftformi
1 lúka basilíka, söxuð

Bolognese er matarmikil og rík kjötsósa sem hentar vel með spagettí en líka frábærlega í lasagna og cannelloni. Eldunartíminn skiptir miklu máli og því lengur sem hún fær að malla því betri er hún. Ef hægt er er gott að leyfa henni að vera á eldavélinni á vægum hita í 3 til 5 klukkustundir. Gott er að elda vænan skammt til að eiga afganga og frysta, einmitt til að geta gripið í og gert lasanja emð stuttum fyrirvara.

Aðferð:

Mýkið lauk, sellerí og gulrætur í stórum potti í olíu og við meðalhita þar til vel mjúkt.

Setjið hakkið og beikonið saman við grænmetið og hrærið vel saman. Hrærið tómatpúrruna saman við og hellið niðursoðnu tómötunum út í. Saltið örlítið og piprið með chillí og látið kjötsósuna malla sem lengst! Basilíkan fer út í þegar vel er liðið á eldunina. Best er að láta kássuna malla á vægum hita í 3-5 klukkutíma og leyfa henni svo að standa aðeins áður en hún er borin fram. Mörgum þykur hún betri daginn eftir. Smakkið sósuna til með salti og smá chillípipar. Berið fram með spagettíi og parmesanosti. 

Höfundur: Halla Bára Gestsdóttir