- +

Hátíðarsúkkulaðimús úr rjómaosti og gæðasúkkulaði


400 g rjómaostur
8 msk flórsykur (8-10 msk)
2 stk egg
1½ tsk vanilla
200 g brætt suðusúkkulaði að eigin vali; allt upp í 70% sterkt, örlítið kælt
500 g þeyttur rjómi
150 g saxað suðusúkkulaði með myntufyllingu (150-200 g), 70%, fínt að nota After Eight

Aðferð

Hrærið rjómaostinn mjúkan í skál. Hrærið saman sykur og egg í annarri skál þar til létt og ljóst. Bætið vanilludropum saman við eggjablönduna og bræddu súkkulaðinu líka með því að hella því í mjórri bunu meðan hrært er. Blandið vel. Þá fer rjómaosturinn saman við súkkulaðiblönduna og allt er hrært vel saman, þar til mjúkt og kekkjalaust. Þeytti rjóminn fer næstur í blönduna en best er að hræra hann saman við á hægum hraða í hærivél eða með sleif. Að lokum er saxaða myntusúkkulaðið hrært saman við og látið flæða jafnt og þétt um músina.

Setjið í eina skál eða fleiri litlar, plastfilmu yfir og í ísskáp þar til á að bera fram. Skreytið að vild. Uppskriftin er fyrir átta. Músin geymist vel í ísskáp og upplagt að gera hana daginn áður en á að bera hana fram.

Höfundur: Halla Bára og Gunnar