- +

Fljótlegt spínatlasanja

Innihald:
1 stk. laukur, skorinn smátt
2 stk. hvítlauksrif, hökkuð
2 msk. smjör
Salt, pipar og hálfur kjúklinga- eða grænmetisteningur
1 stór poki spínat (4-5 lúkur)
1 stór dós kotasæla (500g)
1 dós sýrður rjómi 18% (180g)
¼ tsk. múskat
3 msk. rifinn parmesan ostur
500 g hakkaðir tómatar í dós, krukku eða tilbúin pastasósa
Lasanjaplötur, þurrkaðar eða ferskar
1 poki rifinn pizzaostur

Aðferð:
  1. Ofn hitaður í 170 gráður með blæstri, annars 180 gráður. Laukur og hvítlaukur steiktur upp úr smjörinu við frekar vægan hita þar til mýkist, saltað og piprað og teningurinn mulinn yfir.
  2. Hitinn hækkaður aðeins og spínatinu bætt á pönnuna. Steikið spínatið þar til það hefur linast.
  3. Takið pönnuna af hitanum og bætið kotasælu, parmesan og sýrðum rjóma saman við. Kryddið með múskati, salti og pipar eftir smekk.
  4. Lasanjað er svo sett saman þannig að neðst í eldfast mót fer smá tómatmauk. Svo koma lasanjaplötur, spínatblanda, tómatamauk. Endurtakið þetta þrisvar, endið á spínatblöndu og tómatamauki.
  5. Stráið osti yfir allt saman og bakið í 30 mínútur eða þar til lasanjaplöturnar eru eldaðar í gegn. Gott er að láta lasanjað standa í 10 mínútur áður en það er borið fram.

Höfundur: Helena Gunnarsdóttir