- +

Örþunnt ostasnakk og feta í kryddlegi

Örþunnt ostasnakk
1¼ dl heilhveiti
1¼ dl hveiti, helst próteinríkt
20 g smjör, skorið í örsmáa teninga
½ tsk sjávarsalt
cayennepipar á hnífsoddi
1 stk. lítið egg
⅔ dl sýrður rjómi með graslauk og lauk
5 msk pizzaostur

Feta í kryddlegi, bakaður eða ekki
⅔ dl ólífuolía
¼ tsk þurrkaðar chiliflögur
2 msk ferskt oreganó
2 msk rauðvínsedik
½ msk sítrónubörkur, rifinn
svartur pipar eftir smekk
1 stk. fetakubbur

Aðferð:

Örþunnt ostasnakk:

Stillið ofn á 180° C. Það er einkar þægilegt að gera þessa uppskrift í hrærivél en lítið mál að skella öllu í skál eða setja hráefnin á borðplötuna. Hrærið fyrst saman heilhveiti og hveiti með smjöri, salti og cayennepipar. Setjið svo egg, sýrðan rjóma og ost saman við og hrærið örstutt. Stundum þarf að bæta örlitlu hveiti saman við ef deigið er of blautt. Þegar deigið er klárt skal móta úr því kúlu á borðplötunni og búa síðan til langa rúllu úr því og skera í tuttugu bita. Hver biti er síðan flattur út í örþunnar ræmur sem síðan eru bakaðar þar til þær verða gullnar.

 

Feta í kryddlegi - bakaður eða ekki:

Að útbúa þennan rétt er nánast eitt handtak. Stillið ofninn á 200° C. Hrærið fyrstu sex hráefnunum saman og piprið eftir smekk. Leggið fetakubbinn í eldfast mót og hellið kryddleginum yfir. Bakið ostinn í u.þ.b.15 mínútur, en osturinn bragðast líka mjög vel kaldur. 

Höfundur: Erna Sverrisdóttir