- +

Sumarlegur fiskur í pakka

Innihald:
500 g kartöflur
500 g fiskflak (bleikja, lax, langa, lúða), 500-700 g
1 stk. stór rauðlaukur, skorinn í hringi
1 stk. hvítlauksrif, pressað;, 1-2 stk.
2 stk. tómatar í sneiðum
1 pk. strengjabaunir
fersk steinselja
1 stk. sítróna
50 g smjör, 50-100 g
skvetta af hvítvíni eða eplasafa
salt og svartur pipar
álpappír

Aðferð:

Þessi réttur er nokkuð fljótlegur að henda saman. Hráefnunum er pakkað inn í álpappír, einn pakki á mann og svo er pakkinn einfaldlega settur á grillið eða í ofninn. Í ofni er gott að miða við 180°C hita.

Það er einnig hægt að nota t.d. aspas, gulrætur, spergilkál, sveppi eða hvað annað sem ykkur finnst gómsætt. 

 

Takið til 4 arkir af álpappír og leggið þær á borð.

Setjið eina smjörklípu á hverja örk.

Sjóðið kartöflurnar. Skerið í sneiðar.

Skerið fiskinn í mátulega stóra bita.

Skerið laukinn, tómatana í sneiðar og maukið hvítlauksrifið.

Steikið strengjabaunirnar upp úr smjöri og bragðbætið með salti. Setjið til hliðar.

Skerið sítrónuna í sneiðar.

 

Byrjið á að dreifa kartöflum yfir miðjuna á álpappírnum, þ.e. ofan á smjörið.

Leggið síðan lauk, tómata, hvítlauk og strengjabaunir ofan á.

Fiskbitinn fer síðan ofan á þetta og síðast er steinseljan og sítrónusneiðin sett á.

Brettið upp á álpappírinn og saltið og piprið eftir smekk.

Hellið hvítvíni yfir og lokið pakkanum.

 

Gott er að setja pakkana í ofnfast mót og síðan í ofninn. Ef pakkarnir fara á grillið þarf þess ekki.

Bakið/ grillið pakkana í 10-15 mínútur.

Berið fram með góðu salati.

Höfundur: Theodóra J. Sigurðardóttir Blöndal