- +

Grillaður lax í álbakka með sítrónu og rjóma

Innihald
800 g laxaflak eða sama magn af silungi, roðflett og beinhreinsað
smjörklípa
sjávarsalt og svartur pipar
safi úr 1 1/2 sítrónu
1 dós sýrður rjómi með graslauk og lauk eða 1 dl matreiðslurjómi eða rjómi
½ dl hvítvín, má sleppa
1 búnt flatblaða steinselja, söxuð
4 stk sítrónusneiðar

Aðferð:

Byrjið á að beinhreinsa fiskinn. Rífið tvær arkir af álpappír, ívið lengri en fiskflakið, leggið þær saman og smyrjið með smjörklípu. Leggið laxaflakið þar og skerið í fjóra bita, en gætið þess að skera ekki í gegn. Myljið salt og pipar yfir fiskinn. Næst hrærið þið saman sýrða rjómanum (eða rjóma ef þið notið hann), sítrónusafa og hvítvíni. Hellið blöndunni yfir fiskinn og sáldrið steinseljunni yfir. Ef þið fáið ekki flatblaða steinselju notið þið hefðbundna. Loks eru sítrónusneiðar settar í raufirnar fjórar og álpappírnum lokað. Grillið í 10-12 mínútur.

Berið fram með kúrbít með möndlu- og Ísbúapestói (sjá uppskrift undir 'Meðlæti' og sítrónu.

 

Höfundur: Erna Sverrisdóttir