- +

Ostakaka með hindberjasósu

Botn
6 stk. Digestive kexkökur með eða án súkkulaðis
2 dl kókosmjöl
50 g smjör við stofuhita

Fylling
3 stk. matarlímsblöð
1 stk. vanillustöng, klofin í tvennt
3 dl rjómi
1 dl sykur
280 g rjómaostur
2 dl hrein jógúrt eða jógúrt með vanillubragði

Hindberjasósa
225 g frosin hindber, eða þiðin
4 msk flórsykur
2 msk rjómi (2-4 matskeiðar)

Aðferð:

Klæðið 24 cm lausbotna hringform með bökunarpappír. Það er alveg hægt að nota fallegt eldfast form eða nota nokkur smá form, bara eftir því sem hentar og hvað er til í eldhússkápunum. Maukið allt hráefnið sem fer í botninn með töfrasprota, eða í matvinnsluvél. Þrýstið mulningnum niður á botninn á forminu og aðeins upp í kantinn og setjið síðan í kæli.

Léttþeytið 2 dl af rjóma og setjið til hliðar. Hrærið síðan saman jógúrtinni og rjómaostinum og blandið þeytta rjómanum varlega saman við. Leggið matarlímsblöðin í bleyti í köldu vatni og látið standa í 5 mínútur. Á meðan setjið þið 1 dl af rjóma í pott ásamt vanillustönginni og sykri, en best er að kljúfa vanillustöngina í tvennt. Látið þetta sjóða saman í u.þ.b. eina mínútu. Takið þá vanillustangirnar upp úr og skrapið úr þeim kornin og setjið út í heitan rjómann ásamt matarlímsblöðunum en gætið þess að vera búin að kreista allan vökva úr þeim. Hellið því næst volgri rjómablöndunni saman við rjómaostshræruna og hrærið varlega saman og hellið að lokum á kökubotninn. Ostakökuna þarf að geyma í kæli í a.m.k. 4 tíma áður en hún er borin fram.

 

Sósuna tekur enga stund að gera. Öll hráefnin eru maukuð saman í matvinnsluvél eða með töfrasprota. Gott er að smakka sósuna til með rjóma og bæta við rjóma ef þurfa þykir. Ostakakan er síðan borin fram með hindberjasósunni og stundum léttþeyttum rjóma.

Höfundur: Erna Sverrisdóttir