- +

Kókos-pannacotta með pistasíuhnetum, granataeplafræjum og súkkulaðisnjó

Hráefni
3 stk matarlímsblöð
1 stk vanillustöng, klofin og kornin skröpuð úr
3 dl rjómi
3 dl kókosmjólk (ekki létt)
1 dl flórsykur

Skraut
pistasíuhnetur eftir smekk, saxaðar
fræ af einu granatepli eða mulin hindber
hvítt súkkulaði eftir smekk, raspað

Aðferð:

Leggið matarlímsblöð í kalt vatn í fimm mínútur. Á meðan setjið þið flórsykur, rjóma, kókosmjólk, vanillukorn og klofnu stöngina í pott. Setjið á hellu, kveikið undir og hrærið stöðugt í. Þegar suðan er um það bil að koma upp er potturinn tekinn af hellunni. Hellið næst vatninu af matarlíminu og setjið það út í heita rjómablönduna og hrærið ákaft með píski. Við þetta gýs um dásamleg kósos- og vanillulykt. Hendið vanillustönginni og hellið blöndunni í falleg glös. Setjið í kæli og geymið þar til stíft. Best er að gera þetta daginn áður eða snemma morgun.

Áður en rétturinn er borinn fram eru glösin skreytt að vild; með pistasíuhnetum, granataeplafræjum og vænum skammti af hvítu súkkulaði.

 

Rétturinn hefur allt með sér. Hann er góður, fljótlegur, fallegur, auðveldur og það er hægt að útbúa hann daginn áður. 

Höfundur: Erna Sverrisdóttir