- +

Brownie ískaka með myntu

Brownie:
300 g sykur
5 stk. egg
270 g smjör
270 g konsum suðusúkkulaði
90 g hveiti

Myntuís:
225 g Gott í matinn rjómaostur, við stofuhita
100 g sykur
30 ml mjólk
2 tsk. myntudropar
500 ml rjómi
100 g flórsykur
200 g Siríus pralín rjómasúkkulaði með piparmyntu
2 dropar rauður gel matarlitur, (1-2 dropar)

Toppur:
500 ml rjómi
1 dl súkkulaðisíróp
rauður skrautsykur eða Jimmy's

Aðferð:

Þið getið annað hvort farið eftir þessari uppskrift eða nota djöflakökumix út úr búð til að flýta fyrir. Gott í matinn mælir samt eindregið með þessari uppskrift sem gerir ískökuna ómótstæðilega. Mikilvægt er að báðir botnanrir séu bakaðir í jafnstórum kökuformum.

Brownie, aðferð:

Hitið ofninn í 170 gráður og setjið smjörpappír í botninn á tveimur 20-22 cm hringlaga smelluformum.

Formin sem þið notið fyrir þessa uppskrift þurfið þið svo að nota þegar þið setjið ísinn og kökurnar saman í form.

Þeytið egg og sykur saman í skál þar til blandan verður ljós og létt.

Bræðið smjör og súkkulaði saman í potti yfir lágum hita og hrærið þar til súkkulaðið hefur náð að bráðna alveg.

Setjið hveitið varlega saman við brædda súkkulaðið og hrærið vel saman.

Hellið því næst súkkulaðiblöndunni saman við eggjablönduna og hrærið saman með sleif þar til allt hefur náð að blandast vel saman.

Skiptið deiginu milli formanna og bakið í 30 mínútur. Það er allt í lagi þó svo kakan sé alls ekki fullbökuð fyrir þessa uppskrift. Kælið kökurnar alveg áður en þið setjið þær saman með ísnum. 

 

Myntuís, aðferð:

Hrærið rjómaost og sykur saman þar til blandan verður slétt og fín.

Bætið mjólk og myntudropum saman við og hrærið.

Þeytið rjóma þar til hann stendur og blandið flórsykri saman við rjómann með sleif.

Bætið rjómablöndunni saman við rjómaostinn og hrærið varlega saman með sleif.

Skerið Siríus pralín rjómasúkkulaði með myntufyllingu niður í grófa bita og blandið varlega saman við.

Ef þið viljið lita ísinn þá getið þið sett 1-2 dropa af gelmatarlit að eigin vali. Í þessa uppskrift er notaður rauður matarlitur. 

 

Nú kemur að því að setja kökurnar og ísinn saman í smelluform.

Mikilvægt er að brownie kökurnar hafi náð að kólna alveg. Setjið smjörpappír meðfram hliðunum á smelluforminu sem þið ætlið að frysta ísinn í (sama form og brownie kökurnar voru bakaðar í). Gott er að hafa smjörpappírinn aðeins hærri en formið sjálft því kakan gæti náð örlítið fyrir ofan brúnir formsins.

Setjið einn botn af brownie köku í botninn á forminu. Setjið helminginn af ísblöndunni yfir kökuna og sléttið úr með sleif. Setjið næsta botn af brownie kökunni ofan á ísblönduna. Því næst setjið þið 1 dl af súkkulaðisírópi yfir kökuna og dreifið jafnt og þétt úr. Setjið restina af ísblöndunni ofan á og dreifið jafnt með sleif. Setjið kökuna í frysti í 5 klst að lágmarki. Takið kökuna út og takið hana úr forminu og setjið á disk. Skreytið með súkkulaðisírópi, rjóma og skrautsykri / Jimmy´s. Geymið kökuna í frysti þar til borin er framan. Gott er að láta kökuna standa aðeins við stofuhita áður en hún er skorin. Kakan geymist vel í frysti í 30 daga. 

Höfundur: Thelma Þorbergsdóttir