- +

Bolluhringur með mjúkri ostamiðju

Innihald
5 bollar hveiti
5 msk. heilhveiti
2 tsk. þurrger (eða einn pakki af þurrgeri)
3 msk. sykur
2 tsk. salt
½ l volgt vatn
50 g brætt smjör
1 stk eggjarauða

Ostamiðja
Hvítmygluostur að eigin vali, t.d. Stóri Dímon, Dala Camembert, Dala Auður eða Dala hringur

Lungamjúkar gerbollur og heitur ostur – góð blanda með góðri sultu. Virkilega góð uppskrift af gerbollum sem má nota á ýmsa vegu í veisluna. Þessa uppskrift má líka nota fyrir míní-hamborgara.

 

Aðferð:

Hitið ofn í 180 gráður. Hrærið þurrefnin saman í skál. Búið til gat í miðjuna og hellið vatni og smjöri þar ofan í. Blandið saman með sleif til að byrja með og hnoðið svo í höndunum. Athugið að þetta deig er frekar blautt og þarf ekki að hnoða það mikið. Látið hefast í klukkustund.

Að hefingu lokinni skal móta penar bollur. Hér þarf að hafa hveiti við höndina til að deigið klístrist ekki allt við mann, hveitistrá hendurnar aðeins fyrir hverja bollu, en það er þess virði því þær verða mjög mjúkar eftir bakstur.

Takið ostinn sem þið ætlið að hafa í miðjunni og raðið bollunum í kringum hann. Hafið smá bil á milli bollanna. Látið bollurnar hefa sig/taka sig aðeins aftur um stund. Fjarlægið ostinn. (Hér er ekki vitlaust að nota ost sem er í tréumbúðum, Stóri Dímon, og nota umbúðirnar allan tímann, baka bollurnar með umbúðum) Hrærið eggjarauðu og smyrjið á bollurnar. Stráið birki- eða sesamfræjum yfir þær.

Stingið í ofn og bakið í um 10 mínútur. Takið þá út og látið ostinn í miðjuna eða ofan í formið. Bakið áfram í u.þ.b. 10 mínútur eða þar til bollurnar eru gullnar og osturinn mjúkur.

Ef þið viljið gera hringinn daginn áður skal nota ost með tréumbúðum eða nota lítið hringlaga form í staðinn sem má fara í ofn. Baka hann þar til hann er alveg tilbúinn, um 20 mínútur. Hita þá ostinn þegar á að bera hann fram og setja hann í formið, ofan í bolluhringinn. Berið fram og hafið góða sultu og annað ljúfmeti með.

 

 

Höfundur: Halla Bára Gestsdóttir og Gunnar Sverrisson