Vélræni kokkurinn

Vélræni kokkurinn

Vélræni kokkurinn er nákvæm manneskja sem á auðvelt með að skipuleggja sig og ná árangri. Vélræni kokkurinn getur leyst verkefni á þann hátt að öðrum finnist hann ekkert hafa fyrir því. T.d. er eldhúsið í óaðfinnanlegu ásigkomulagi eftir að eldamennska hefur farið fram, því sá vélræni tekur alltaf til eftir sig jafnóðum. Vélræni kokkurinn myndi aldrei láta það gerast að kartöflurnar væru ekki tilbúnar á sama tíma og fiskurinn og maturinn er yfirleitt tilbúinn á réttum matmálstíma [les: kl 19].

Vélræni kokkurinn fylgir uppskriftum af mikilli samviskusemi og allt sem heitir slump og að spila eftir eyranu í matargerð er mjög fjarri vélræna kokknum. Áhugi og ástríða fyrir matargerð er samt sem áður mikil og vélræni kokkurinn getur eytt löngum stundum í að ræða matargerð. Búsáhöld á vélræni kokkurinn í miklu úrvali og heldur í fullkomnu ástandi. Vélræni kokkurinn kýs frekar að loka sig af í eldhúsinu.