Hamfarakokkurinn

Hamfarakokkurinn

Hamfarakokkurinn er venjulega með hugann við eitthvað annað en matargerðina og hann þyrfti landakort til að rata um skápana í eigin eldhúsi. Hamfarakokkurinn er sósu-kokkur par exellance og hæfileikar hans við matargerðina eru umtalsverðir þrátt fyrir að skipulaginu sé ábótavant. Hamfarakokkurinn gengur ekki frá jafnóðum því hann telur sér trú um að hann megi engan tíma missa og þurfi að einbeita sér að matargerðinni frekar en að setja hveitið, smjörið og súputeningana á sinn stað.

Hamfarakokkurinn getur samt auðveldlega deilt athyglinni með útvarpinu, sjónvarpinu og jafnvel símanum. Ef svo ólíklega vill til að hamfarakokkurinn noti uppskriftabók þá á hann það til að leggja frá sér pott eða fat ofan á opna bókina og þess vegna er saga matargerðar hamfarakokksins rituð með sósuleyfum á matargerðarbækur heimilisins. Hjá hamfarakokknum eru bara tvær stillingar á eldavélinni: 1 eða 6.