Ástríðukokkurinn

Ástríðukokkurinn

Ástríðukokkurinn elskar mat. Fyrir ástríðukokknum er matarást ekki ást sem hann hefur á einhverjum, matarást er ást sem hann hefur á mat og hann tjáir ást sína með mat.

Ástríðukokkurinn hugsar látlaust um mat. Hann er í góðu sambandi við náttúruna og veit alltaf hvaða hráefni eru fáanleg og bragðast best á hverjum árstíma. Það eru kríuegg og sperglar á vorin, fiskur á sumrin, villibráð á haustin og rótargrænmeti og saltfiskur (sem ástríðukokkurinn kallar nb. baccalá) á veturna.

Það þarf varla að spyrja að því að ástríðukokkurinn notar helst gaseldavélar jafnvel þó það kosti hann smá fyrirhöfn. Ástríðukokkurinn er uppátektasamur í eldhúsinu og hefur unun af því að „uppfæra“ og „endurbæta“ uppskriftir og gera þær að „sínum“. Ástríðukokkurinn setur þá smá chili hér, smá sítrónubörk þar – hann fær sífellt einhver hráefni á heilann og þá reynir hann að koma þeim að sem víðast og lætur fólk vita af því.

Ástríðukokkurinn fylgist náið með öllum helstu straumum og stefnum í matargerð og er fljótur að tileinka sér það nýjasta. hvort sem það er sushi, slow-cooking eða hrámatur.

Ástríðkokkurinn lítur á sig sem skemmtikraft í eldhúsinu og hann vill helst vinna í eldhúsi sem er opið þannig að aðrir sjái til og ef það er hægt að gera eitthvað sem bætir upplifunina af matnum,

eins og til dæmis að sáldra yfir hann steinselju, þá gerir ástríðukokkurinn það skilyrðislaust. Ástríðukokkurinn elskar að flambera.