Tinna Alavis
Vatnsdeigsbollur með hindberjarjóma og Nutella
12. febrúar 2018

Vatnsdeigsbollur með hindberjarjóma og Nutella

Gleðilegan Bolludag!

Ég og Ísabella bökuðum vatnsdeigsbollur um helgina og fylltum þær með Nutella, hindberjarjóma og hindberjasultu. Ofan á var brætt súkkulaði hrært saman við hlynsýróp og rjóma. Þær smökkuðust ótrúlega vel. Ég elska alla svona öðruvísi daga. Hvort sem það er Bolludagur, Sprengidagur eða Öskudagur.

Hér er allt sem þarf fyrir 9 meðalstórar bollur:

2 dl vatn

100 g íslenskt smjör

2 dl hveiti

2 egg

1/2 tsk. salt

 

Aðferð:

Stillið ofninn á 180°C - blástur.

Sjóðið vatn og smjör saman í potti uns smjörið hefur bráðnað.

Takið pottinn af hellunni og bætið hveiti og salti saman við.

Hrærið deigið vel saman með sleif þar til það er orðið að kúlu.

Setjið deigið í hrærivélina á lítinn hraða í stutta stund þannig það kólni aðeins og það er hætt að rjúka úr því.

Setjið eggin í litla skál og pískið þau saman með gaffli áður en þið hellið þeim saman við deigið (lítið í einu).

Setjið smjörpappír á plötu og mótið bollur. Það er annað hvort hægt að sprauta þeim á, búa til kúlur eða nota skeiðar. Ég og Ísabella gerðum kúlur af því það er mesta stuðið! :)

Bakið bollurnar í 25 mínútur, takið þær úr ofninum og látið kólna vel áður en þær eru skornar í tvennt og fylltar.

Fyllingin sem við notuðum var:

Nutella, hindberjarjómi og hindberjasulta.

Hindberjarjómi:

1 peli rjómi frá Gott í matinn

Fersk hindber

4 msk. flórsykur

Aðferð:

Kremjið hindberin vel með gaffli og setjið saman við þeyttan rjómann ásamt flórsykrinum.

Ofan á var:

200 g súkkulaði

3 msk. rjómi

2 msk. hlynsýróp

Bræðið allt saman í potti á miðlungs hita og hellið yfir lokin á bollunum.

Bakið bollurnar í 25. mínútur á 180°C - blæstri.

Ég vona að þið eigið ánægjulegan Bolludag og að bollurnar smakkist vel! :)

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!