Tinna Alavis
Tvær ljúffengar kökur úr uppskriftasafni fjölskyldunnar
27. október 2015

Tvær ljúffengar kökur úr uppskriftasafni fjölskyldunnar

Þennan eftirrétt fékk ég einu sinni í matarboði hjá tengdamömmu, mér til mikillar ánægju þar sem ég er algjör eftirréttakerling. Þegar ég veit að það er eftirréttur á boðstólnum þá spara ég mig alltaf fyrir hann og borða aðeins minna af aðalréttinum. Það skemmtilega við þennan ljúffenga eftirrétt er að hann er virkilega einfaldur og það er ekki hægt að klúðra honum

Skyrterta með kirsuberjasósu

Hér er allt sem þú þarft:

1 pakki LU kex
100 gr. íslenskt smjör
1 peli rjómi
1 stór dós KEA vanillu skyr
Kirsuberjasósa

Aðferð:

Ég byrjaði á því að mylja LU kexið í matvinnsluvél og hella því í kringlótt form. Næst bræddi ég smjörið og hellti yfir kexið. Magn smjörsins fer algjörlega eftir smekk en mér finnst gott að hafa kexið vel blautt.

 

Þá er komið að því að þeyta rjómann og hræra skyrinu vel saman við.

Þessu er svo smurt jafnt yfir kexblönduna.

Í lokin er ljúffengu kirsuberjasósunni hellt yfir allt.

Það er vel hægt að bæta við bláberjum, jarðarberjum eða hverju sem ykkur dettur í hug. Eftirrétturinn er svo kældur vel inni í ísskáp áður en hann er borinn fram.
Ég vona að ykkur finnist þetta jafn bragðgott og mér.

---

Hin uppskriftin sem ég deili með ykkur að þessu sinni hefur verið á boðstólnum í minni fjölskyldu frá því ég var lítil. Hún er sú allra besta að mínu mati og þeir sem hafa smakkað hana eru eflaust sammála mér. 

Súkkulaði-bananaterta

Botnar:

4 egg,

1 bolli sykur

1/2 bolli hveiti

2 msk kakó

1 msk. kartöflumjöl

1 tsk. lyftiduft.

 

Aðferð: Ofn hitaður í 180°C. Egg og sykur þeytt saman þar til blandan verður létt og ljós. Þá er þurrefnunum blandað saman við með sleikju. Skiptið deiginu jafnt í tvö form og bakið við 180°C í 20 mínútur á blæstri. Látið botnana kólna alveg áður en bananakremið er sett á milli.

 

Bananakrem – gott að kæla í ísskáp áður en það er sett á milli botnanna:

 

100 gr. mjúkt, íslenskt smjör

70 gr. flórsykur

4 stappaðir bananar (best að hafa þá þroskaða).

Aðferð: Smjör og flórsykur þeytt vel saman. Því næst er stöppuðum bönunum bætt út í.

 

Súkkulaðibráð ofan á:

 

100 gr mjúkt, íslenskt smjör

100 gr. flórsykur

1 1/2 stykki suðusúkkulaði

1 egg

Nokkrir vanilludropar.

 

Aðferð:
Smjör, flórsykur og egg þeytt saman. Súkkulaði brætt yfir gufu og hellt út í eftir að það hefur kólnað aðeins, ásamt vanilludropunum.

Í minni fjölskyldu skreytum við þessa tertu með niðursoðnum perum og þeyttum rjóma.

Ég mæli svo sannarlega með að prófa þessa.

 

Vonandi smakkast hún vel!

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!