Tinna Alavis
Súkkulaðimöffins
09. mars 2016

Súkkulaðimöffins

Í dag bakaði ég þessar ljúffengu súkkulaði möffins en mér finnst best að hafa kökurnar mínar örlítið blautar og helst þannig að þær bráðni í munninum. Einnig finnst mér ómissandi að hafa ískalda nýmjólk með. Nammi namm!

Uppskrift

 

200 g hveiti

200 g sykur

2 tsk. lyftiduft

50 g kakó

2 egg

1/2 bolli rjómi

150 g íslenskt smjör – við stofuhita

3 tsk. vanilludropar

1 pakki suðusúkkulaði

smá salt

 

Aðferð:

Hitið ofninn í 180°C – blástur.

Hrærið þurrefnunum saman (hveiti, lyftiduft, sykur, kakó og salt) og setjið til hliðar.

Saxið suðusúkkulaðið og setjið saman við þurrefnin.

Setjið smjörið eitt og sér í hrærivélina þar til mjúkt og bætið þá vanilludropunum saman við ásamt rjómanum og eggjunum. Hrærið þetta vel saman og bætið þá þurrefnunum saman við og haldið áfram að hræra þar til allt hefur blandast vel saman. Skiptið deiginu niður í 12 möffinsform og bakið við 180°C í 20 mínútur. Mér finnst alltaf gott að fylgjast með kökunum þegar 15 mínútur eru liðnar. Better be safe than sorry :)

 

Látið kökurnar kólna vel áður en þið setjið smjörkremið á.

 

Smjörkrem

 

200 g íslenskt smjör

250 g flórsykur

1 tsk. vanilludropar

1/2 bolli rjómi

150 g suðusúkkulaði

 

Bræðið suðusúkkulaðið yfir vatnsbaði og geymið til hliðar.

Setjið smjörið eitt og sér í hrærivélina þar til mjúkt og bætið þá rjómanum saman við ásamt vanilludropunum og bræddu súkkulaðinu. Næsta skref er að setja flórsykurinn saman við og hræra þar til kremið er orðið mjúkt og fallegt.

Sprautið kreminu á kökurnar og skreytið að vild.

Ég vona að þið njótið vel :)

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!