Tinna Alavis
Rjómaís með vanillubragði
22. júní 2016

Rjómaís með vanillubragði

Um daginn langaði mig sjúklega mikið í alvöru rjómaís til þess að hafa með leiknum,
Ísland-Portúgal.
Ég var svo stressuð síðustu mínúturnar að ég var að fara á lím­ing­un­um. Strákarnir stóðu sig svakalega vel og ég tek ofan fyrir markmanninum.

Ég ákvað að gera minn eigin rjómaís en þessi sem hægt er að fá úti í búð er ekki sambærilegur og heimatilbúinn ís að mínu mati, enda inniheldur hann einungis 11% rjóma & undanrennuduft.

Þessi uppskrift er ofur einföld og fljótleg í þokkabót.

Hér er allt sem þarf:

500 ml rjómi
4 egg
10 msk flórsykur
3 tsk vanilludropar
Súkkulaði til þess að rífa yfir ísinn

Fyrst eru eggin og flórsykurinn sett saman í hrærivélina þar til blandan er orðin loftkennd.
Þá er vanilludropunum bætt út í og hrært aðeins lengur.

Næst er rjóminn þeyttur. Mér finnst gott að hafa hann léttþeyttan svo ísinn verði mýkri.

Þá er komið að því að hræra þeytta rjómanum varlega en þó vel saman við eggjablönduna eða þar til guli liturinn deyr út.

Þá lítur blandan svona út. Í þessu skrefi er hægt að leika sér endalaust með ísinn áður en hann er settur í frost. Ég hef til dæmis sett brytjað Toblerone út í ísinn, kókosbollu, ferska ávexti eða hvað sem hugurinn girnist hverju sinni. Þegar ég vil gera extra vel við mig þá útbý ég heita súkkulaðisósu líka. Í þetta skiptið hafði ég ísinn ofur einfaldan.

Hellið ísnum í frostþolin ílát með loftþéttu loki. Gott er að hræra aðeins í ísnum af og til á meðan hann er að harðna.

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!