Theodóra J. Sigurðard. Blöndal
Uppskriftin sem leyndist á mjög góðum stað. (hnetusnikkers- karamellukaka)
28. nóvember 2014

Uppskriftin sem leyndist á mjög góðum stað. (hnetusnikkers- karamellukaka)

Það er alltaf annað hvort mánudagur eða laugardagur! Laugardagar er það sama og sætindisdagur hjá mér. Þá má allt og ekkert fær mig stöðvað. Ég byrja að leita að ákveðinni uppskrift sem mig langar að búa til og sem ég veit að leynist einhverstaðar á mjög góðum stað. Þekkið þið það? Ég þoli ekki þegar ég legg hlutina frá mér á góða staðnum því yfirleitt finn ég staðinn eða hlutinn aldrei aftur. En í þetta sinn fannst uppskriftin eftir góða leitartörn og hér kemur hún. Ég er svakalega veik fyrir karamellusósu og hnetum þannig að þessi kaka er himnariki. Kakan er lang best daginn eftir þegar hún er búin að taka sig. Þá er líka hægt að skera hana í fallega ferkantaða litla mola.En ef engin séns er á því að hemja sig - þá er ekkert við  því að gera og bara byrja. Þá er líka erfiðara að skera kökuna. Best að nota skeið og moka á diska, láta eina skeið af t.d. ís bráðna fallega á hliðinni ásamt nokkrum sykurpúðum og svo leyfa afganginum af karamellusósunni  hringlast í fallega hringi yfir þessu undraverki.

 

Þegar kemur að hnetum og karamellu get ég ómögulega afþakkað. Þannig að hér er uppskriftin af kökunni. Hægt er að nota tilbúna karamellusósu eða sjóða sína eigin sósu. Ég bý til mína eigin en það er auðvitað smekkstatriði og líka stundum spurning um tíma.

Best er að byrja á sósunni því hún þarf að sjóða í smá tíma. 

 

Karamellusósa - heimagerð

120 g smjör

1 1/2 dl púðursykur

1 dl síróp

2 dl rjómi

Vanillusykur eftir smekk

 

Öll hráefnin sett í pott og látin bráðna saman. Þegar suðan er komin upp er hitinn lækkaður og sósan látin malla í 15-20 mínútur. Hrærið af og til. Takið pottinn af hitanum og látið standa þar til sósan á að vera notuð. Hún má alveg vera í þynnra lagi og á líka að vera það þegar henni er hellt yfir kökuna – hún þykknar þegar hún kólnar.

 

Kakan

2 1/2 dl hveiti

1/2 tsk lyftiduft

1/4 tsk matarsódi 

1/2 tsk salt

70 g smjör

1 1/2 dl púðursykur

1 egg

2 tsk vanillusykur eða dropar

1 1/2 dl karamellusósa

3-4 snickers í mola 

 

Ofnhiti: 180 °C

Bökunartími: 25 mínútur

 

Hvernig á svo að gera?

Stillið hitann á ofninum. Finnið til ofnfast mót og setjið í það bökunarpappír. Formið á ekkert að vera mjög stórt. Þetta verða svona 10-12 bitar af köku.

Náið í skál, mælið þurrefnin þ.e hveiti, lyftiduft, matarsóda ásamt salt og setjið þau í skálina. Setjið hana til hliðar. 

Bræðið smjörið og blandið púðursykrinum saman við. Hrærið vel þar til sýkurinn er leystur upp - bætið þá egg og vanillusykur saman við og þeytið létt þar til allt hefur blandast vel saman. 

Skerið snickersstykkin í mola. 

Blandið þurrefnin saman við smjör- og sykurblöndunina. 

Hafið allar skálarnar fyrir framan ykkur því núna á að raða í bökunarformið. 

Hluti af kökudeigið fer í botnin á forminu. En athugið! EKKI allt - setjið frekar þunnt lag í botnin á forminu. Hafið engar áhyggjur – kakan mun stækka!

Stráið snickersmola yfir deigið. 

Hellið karamellusósunni yfir allt degið þannig að það er þakið sósu. 

Setjið afganginn af kökudeiginu yfir karamellusósuna. Gott er að nota skeið til þess og dreifa svo úr deiginu. Kakan á eftir að hækka mjög þegar hún bakast. 

 

Setjið kökuna í ofninn og bakið hana í 25 mínútur. Hún á að vera laus í sér þegar þið takið hana út úr ofninum þannig að alls ekki baka hana lengur. Látið hana kólna í rúmlega klukkutíma áður en smakkað er.

 

 

Hvernig hljómar að bera hana fram með ís, karamellusósu jafnvel marens eða sykurpúða? 

Eða þeyttan rjóma? Eða sýrðan rjóma bragðbættan með til dæmis rifið apelsínuhýði eða vanillu? Möguleikarnir eru endalausir – prufað allt sem ykkur dettur í hug og finnst gott á bragðið!

Verði ykkur að góðu!

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!