Theodóra J. Sigurðard. Blöndal
Tvær sumarlegar berjakökur með vanillukremi
30. júní 2017

Tvær sumarlegar berjakökur með vanillukremi

Fljótlegar, einfaldar og ljúffengar kökur með fallegum og sumarlegum berjum

Jarðarber og bláber eru sumarleg að mínu mati og mér finnst þessi ber passa alveg sérstaklega vel í kökur. Enga stund tekur að baka þessar kökurnar og hráefnin í þær eru oftast til heima.

Vanillukremið kann mögulega að vefjast fyrir sumum en treystið mér – þetta tekur enga stund, er einfalt í framkvæmd og alveg einstaklega gómsætt. Vanillukremið hentar með kökum og passar líka vel sem fylling á milli tertubotna.

 

Sumarleg jarðarberjakaka

 

1 egg

1 ½  dl sykur

1 ½  dl hveiti

1 tsk. vanillusykur eða dropar

50 g brætt smjör

 

12 -18 stk. fersk jarðarber

 

Flórsykur sigtað yfir

 

Ofnhiti: 180 °C

Baksturstími:

 

Þeytið egg og sykur vel saman.

Bætið hveiti og vanillusykri saman við og hrærið.

Bræðið smjörið og hellið því saman við og blandið vel saman.

Hellið í mjótt brauðform, gott er að tylla bökunarpappír í formið og hella síðan deiginu í formið.

Raðið jarðarberjunum fallega yfir deigið.

Bakið í miðjum ofninum í um 25 mínútur.

 

 

 

 

Sumarleg bláberjakaka

 

100 g smjör, brætt

100 g hvítt súkkulaði

2 egg

1 ½ dl sykur

1 ½ dl hveiti

1 ½ tsk. vanillusykur eða dropar

örlítið salt á hnífsodd

2 dl bláber

 

Ofnhiti: 175 °C

Baksturstími: 20 mínútur

 

Stillið ofnhitann.

Bræðið smjör og bætið súkkulaði saman við og látið það bráðna í smjörinu.

Þeytið egg og sykur svo það verði létt og ljóst.

Blandið hveiti, vanillu og salti saman við eggjaþeytinginn og hrærið varlega svo blandist vel.

Hellið smjörsúkkulaðinu út í og blandið saman við.

Síðast er helmingnum af bláberjunum hrært saman við deigið.

Hellið deiginu í form (gott að tylla bökunarpappír í formið) og bakið kökuna í miðjum ofninum í um 20 mínútur.

Látið kökuna kólna aðeins áður en hún er borin fram með dásamlegu vanillukremi eða þeyttum rjóma.

 

 

 

 

Heimagert vanillukrem

(Hægt er að helminga uppskriftina með góðum árangri)

 

4 eggjarauður

1 dl sykur

1 msk. maizenamjöl

3 dl rjómi

2 dl mjólk

1 -2 vanillustangir

 

Setjið eggjarauður í skál og þeytið vel saman með sykri og maizenamjöli.

Hellið rjóma og mjólk í pott og látið suðuna koma upp.

Skrapið vanillustöngina og setjið vanillukornin út í mjólkina.

Takið pottinn af hitanum og þeytið eggjablönduna saman við rjómablandið.

Setjið pottinn aftur á hitann, lækkið hitann og hrærið stöðugt í á meðan vanillukremið byrjar að þykkna. Þetta tekur nokkrar mínútur, mögulega 5-10.

Kremið er tilbúið þegar það er orðið verulega þykkt og helst nokkurn veginn á skeiðinni þegar þú setur krem í hana.

 

Látið kremið kólna aðeins áður en það er borið fram með kökuna. 

 

 

Verði ykkur að góðu,

matarást,

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!