Theodóra J. Sigurðard. Blöndal
Tvær ostakökur í mars
01. mars 2018

Tvær ostakökur í mars

Ostakökur – bakaðar eða frystar, eru þær mjög skemmtilegar að búa til , alltaf jafn góðar og gaman að bjóða upp á. Hægt er að leika sér með brögðum og nánast hægt að bragðbæta með hverju sem er. Kökurnar sóma sér vel á hvaða veisluborði sem er en best er að baka þær einum til tveimur dögum áður en á að bera þær fram.  Skreytið ostakökuna ykkur að vild með ferskum fallegum berum, blómum og blöðum eða uppáhalds sætindunum ykkar! Hér eru tvær uppskriftir af mínum uppáhalds-ostakökum en þær eru einmitt bakaðar! Njótið vel!

Ostakaka með vanillu og gljáðum sykri

Botn

10 haustkex

2 msk. sykur

50 g brætt smjör

Fylling í botn

1 ¾ dl sykur

1 msk. flórsykur

1 ½ msk. hveiti

200 g rjómaostur frá Gott í matinn

3 egg

3 msk. þeyttur rjómi frá Gott í matinn

3 msk. sýrður rjómi frá Gott í matinn

2 tsk. vanillusykur

 

Hitið ofninn í 175 °C.

Myljið haustkex vel með sykrinum í matvinnsluvél. Bræðið smjörið og blandið því saman við mylsnuna. Þrýstið mylsnuna í botninn á formi (smelluformi eða ferköntuðu ,,browniesformi“) og bakið botninn í um 6-8 mínútur. Látið botninn kólna.

Lækkið hitann á ofninum í 150 °C.

Þeytið ost, hveiti og sykur vel saman í hrærivél. Setjið eggin saman við, eitt í einu og þeytið vel á milli. Bætið rjómanum, sýrða rjómann og vanillusykrinum saman við og blandið varlega saman. Hellið fyllinguna í kexbotninn. Bakið kökuna neðarlega í 55-60 mínútur. Látið kökuna kólna vel áður en hún er skreytt og borin fram.  Ég stráði sykur yfir kökuna mína og notaði gasbrennarann minn til að bræða sykurinn ofan á og það gaf kökunni skemmtilegt ,,kröns“ líkt og sykurinn ofan á creme brulee desert. Skreytið með t.d. ferskum berum.

 

Ostakaka a la after eight

Botn

14 haustkex

1 msk. sykur

1 msk. kókosmjöl

1 egg

1 tsk. vanilludropar

 

Fylling

600 g rjómaostur frá Gott í matinn

2 ½ dl sykur

½ dl flórsykur

2 tsk. vanillusykur

salt á hnífsodd

1 dl sýrður rjómi frá Gott í matinn

4 egg

20 -25 plötur after eight (ég bæti alltaf meira við)

 

Hitið ofninn í 170 °C.

Myljið haustkex, sykur og kókos vel í matvinnsluvél. Bætið egginu saman við og blandið vel við mylsnuna. Þrýstið mylsnunni í botninn á formi, gott er að láta botninn ná örlítið upp á kantana í forminu (smelluformi eða ferköntuðu ,,browniesformi“) og bakið botninn í um 6-8 mínútur. Látið kólna.

Þeytið rjómaostinn mjög vel saman við sykurinn þar til myndast hefur krem. Bætið við salti og sýrðum rjóma og þeytið áfram. Bætið eggjum við, einu í einu og þeytið vel á milli. Hellið fyllinguna í formið.

Bræðið after eight plöturnar í örbylgjuofni eða yfir vatnsbaði. Notið skeið og dreifið súkkulaðinu yfir fyllinguna. Bakið í um 60 mínútur. Látið kökuna kólna vel áður en hún er skreytt með t.d. ferskum ávöxtum og auðvitað nokkrum after eight plötum. Verði ykkur að góðu.

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!