Theodóra J. Sigurðard. Blöndal
Tilraunastarfsemi í kakógerð og heimagerðir grænmetisborgarar
04. mars 2015

Tilraunastarfsemi í kakógerð og heimagerðir grænmetisborgarar

Heitt kakó með hnetusmjöri eða appelsínum? Grænmetishamborgarar og þitt eigið hamborgarabrauð sem tekur enga stund að búa til!

Það er búið að vera mikill vetur undanfarið og er enn. Einmitt núna er þess vegna alveg tilvalið að vera með tilraunastarfsemi í kakógerð! Hér eru nokkrar hugmyndir sem ég mæli með að verði prófaðar:

 

Heitt kakó með hnetusmjöri

Heitt kakó með appelsínuberki

Heitt kakó með ís

Heitt spennanndi og öðruvísi kakó

Á móti einum líter af mjólk nota ég:

100 g af suðusúkkulaði

eða

5 tsk kakóduft

3 msk sykur

dass af vanilludropum

 

Mjólkin er hituð að suðu, tekin af hitanum og súkkulaðið látið bráðna í mjólkinni.

Ef þú notar kakó og sykur þá er því hrært saman með smá af mjólkinni og svo hrært út í þegar mjólkin er orðin heit. Smakkið til með vanillu.

 

Svo er bara að velja og prufa!

 

Heitt kakó með skeið af þínum uppáhaldsís

Já, hvaða ís elskar þú mest?

Heitt kakó með skeið af hnetusmjöri..

Bættu við hnetusmjöri eftir smekk í bollann þinn.

Heitt kakó með skeið af sírópi

Skeið af sírópi gerir undraverk og mun koma þér á óvart!

Heitt kakó með kókósmjólk ..

Notaðu smá kókósmjólk á móti aðeins meira magni af mjólkinni. Það er gott að prufa sig áfram með ný brögð og betra að byrja smátt og svo bæta við…

Heitt kakó með nokkrum sykurpúðum

Sykurpúðar klikka aldrei út í heitt kakó!

Heitt kakó með rifnum appelsínuberki

Rífðu hýðið af hálfri appelsínu og hrærðu saman við kakóið. Smakkast eins og dásamlegur konfektmoli!

Heitt kakó með chili!

Elskar þú chili? Notaðu annað hvort smátt saxaðan rauðan chili, þurrkaðar chiliflögur eða skvettu af Tabasco í kakóið!

-----

 

Einn af mínum uppáhaldsréttum eru hamborgarar. Ég verð bara hér með að viðurkenna það. Þeir eru bara alltaf góðir og standa alltaf fyrir sínu og eru allir svipaðir en á saman tíma alltaf alveg ofboðslega ólíkir, bæði hvað varðar útlit, bragð og innihald.

Það er alveg frábær skemmtun að búa til sinn eigin hamborgara alveg frá grunni og ekki er það verra að hafa börnin með. Ég geri ráð fyrir að flestir eru með kjöthamborgarann sinn á hreinu þannig að hér er uppskrift að grænmetishamborgara. En byrjum á hamborgarabrauðinu.

 

Hamborgarabrauð fyrir 4

 

2 dl mjólk

1/2 msk síróp

1 msk olia

5 dl hveiti

1 tsk þurrger

1 tsk salt

1 msk sesamfræ

1 egg til að pensla

 

Ofnhiti 200 °C - 8 mínútur í ofni

 

Mjólk, síróp og olía er hitað í 37 °C, t.d þegar litli fingur er dýft ofan í þá á þetta að vera volgt.

Blandið saman helminginn af hveitinu með þurrgeri og salti.

Hellið vökvanum saman við hveitið og hrærið. Bætið afganginum af hveitinu við eftir þörfum og hnoðið þar til komið er gott deig.

Látið deigið hefa sig í 20-30 mínútur á hlýjum stað. Ég læt deigin mín alltaf hefa sig nálægt ofninum og eldavélinni því þar er hlýjast.

Mótaðu svo bollur og settu þær á bökunarplötu og aftur á hlýjan stað þar sem þær eiga að hefast þar til þær eru rúmlega tvöfaldar að stærð.

Úr þessu deigi urðu til sex bollur hjá mér.

Penslaðu þær með þeyttu eggi og stráðu kryddi yfir þær. Veldu eitthvað krydd með lit í eins og t.d. steinselju, chiliflögur og auðvitað nokkrar saltflögur. Semesamfræin standa líka alltaf fyrir sínu.

 

Grænmetishamborgari

Í þessari uppskrift er hægt að bæta við því sem til er heima eftir hentisemi og aðlaga þannig uppskriftina svo hún verði þín eigin. Þetta er í raun einskonar grunnuppskrift að grænmetisborgurum eins og ég geri þá.

 

1 bökunarkartöfla smátt skorin og soðin

1 sæt kartafla, smátt skorin og soðin

1 dl rauðar linsubaunir soðnar í 2 dl vatni  eða

1 dós kjúklingabaunir (hægt að nota í staðinn fyrir linsubaunir)

1 dl quinoakorn soðin í 2 dl vatni eða sama magn af hýðisgrjónum

1 gulur smátt saxaður laukur

1/2 rifinn piparostur eða meira

haframjöl og hveiti eftir þörfum

salt, pipar og nokkrar chiliflögur

 

Sjóðið kartöflur, grjón og linsubaunir. Ef þið notið kjúklingabaunir eru þær teknar beint úr dósinni en vökvanum hellt af.

Setjið kartöflur og baunir í matvinnsluvél og maukið. Það er auðvitað líka hægt að mauka þetta í skál með stappara.

Setjið blönduna í skál. Bætið við rifna piparostinum og smakkið til með salt og pipar.

Bætið við haframjöli og hveiti eftir þörfum til að þykkja deigið - það á að vera hægt að móta það í buff.  Stundum þarf aðeins meira af hveiti og haframjöli.

Þegar deigið er tilbúið mótið þið hamborgara, veltið þeim upp úr haframjöli og steikið þannig að þeir verða gylltir og fallegir.

Í hamborgarabrauðið setur þú að sjálfsögðu það sem þú vilt sem meðlæti og elskar mest.

 

Verði ykkur að góðu!
 

Matarást,

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!