Theodóra J. Sigurðard. Blöndal
Það er fiskur í matinn!
16. október 2017

Það er fiskur í matinn!

Undanfarið hef ég verið að kenna nemendum í  6. og 7. bekk hvernig hægt er að matreiða góða, spennandi og ekki flókna ofnbakaða fiskrétti hér í heimilisfræðinni. Réttirnir hafa vakið mikla lukku meðal nemenda og hefur það  komið þeim mikið á óvart hversu einfaldir og góðir þessir réttir eru.

Mér fannst ekki annað hægt en að deila þessum uppskriftum hér og vil ég hvetja ykkur til að matreiða þá með börnum ykkar – eða þá að leyfa þeim að matreiða alveg sjálf. Það leynist mögulega meistarakokkur á heimilinu svo það er um að gera að leyfa börnunum að njóta sín í eldhúsinu :) 

Uppskriftirnar sem um er að ræða er m.a. pizzufiskur sem samanstendur af nokkrum einföldum hráefnum sem oft eru sett á pizzu. Hér eru þau sett á fisk og auðvitað er hægt að minnka eða auka magnið af þeim eins og hverjum og einum finnst best. Hin uppskriftin er af banana-kókos-karrí-fiski og þar eru blönduð saman kókosrjómi, karrí, bananar og gulrætur. Fallegur, litríkur og bragðgóður réttur þar sem einnig er hægt að leika sér með brögðum og bæta við það sem manni finnst gott. 

Með fisknum suðum við hrísgrjón og gerðum gulrótarsalat sem samanstóð rifnum gulrótum, kreistum appelsínusafa og rúsínum. Nemendur stungu upp á því að skera alla appelsínuna og þannig nýta hana alla sem við að sjálfsögðu gerðum og einnig kom sú hugmynd fram að nota ananas í salatið.

Uppskriftirnar miðast við 2 – 3 fullorðna og voru það frábærir nemendur í 7.bekk sem matreiddu réttina sem eru á myndunum.

 

 

Pizzufiskur

(fyrir  2-3)

400 g ýsa  (eða annar fiskur)

2 msk. olía

1 gulur laukur

3 ananas sneiðar

6-8 pepperóní sneiðar

½ - 1 dós niðursoðnir tómatar

3 – 4 msk. rjómaostur

1 msk. óreganó

Salt og svartur pipar eftir smekk

2 dl rifinn ostur

 

Aðferð

 

 

 

Stillið ofnhitann á 180 °C

Finnið til ofnfast form.

Afhýðið laukinn og skerið hann smátt.

Skerið ananasinn í minni bita og pepperóníið í ræmur.

Skerið fiskinn í smærri bita ef ykkur finnst þurfa.

Dreifið olíunni um formið og leggið fiskinn í formið. Kryddið fiskinn með salti, pipar og óreganó.

Stráið lauknum yfir ásamt pepperóní og ananas.

Opnið tómat dósina og hellið innihaldinu (eða helmingnum) yfir fiskinn. Setjið teskeið af rjómaosti hér og þar yfir tómatana.

Stráið rifnum osti yfir og kryddið létt.

Bakið neðarlega í ofninum í um 15 – 20 mínútur.  Berið fram með hrísgrjónum og salati.

 

 

Banana-kókos-karrí fiskur

400 g fiskur (ýsa, langa, lax…)

2 msk. olía

2 gulrætur

2 dl kókosmjólk

1 banani

2 dl rifinn ostur

3-4 tsk. karrí

Sítrónupipar eftir smekk

Salt og svartur pipar eftir smekk

Graskersfræ, má sleppa

 

Aðferð

 

Stillið ofnhitann á 180 °C

Finnið til ofnfast form og dreifið olíu í formið.

Skerið fiskinn í mátulega bita og setjið hann í formið.

Skrælið gulræturnar og skerið þær smátt.

Skerið bananann í þunnar sneiðar.

Kryddið fiskinn með sítrónupipar, smá salti og pipar.

Hellið kókosmjólkinni í litla skál og hrærið í henni svo hún blandist vel saman. Kryddið hana með karrí, smá salti og aðeins af pipar. Það má alveg bæta aðeins við af kryddunum.

Hellið kókosmjólkinni  yfir fiskinn og leggið banana- og gulrótarsneiðarnar fallega yfir sósuna.

Stráið rifnum osti yfir í lokinn og kryddið örlítið meira eftir smekk.

Stráið graskersfræjum yfir ostinn.

Bakið neðarlega í ofninum í um 15 – 20 mínútur.

Berið fram með salati og hrísgrjónum.

 

Njótið vel og verði ykkur að góðu!

 

Matarást

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!