Theodóra J. Sigurðard. Blöndal
Tagliatelle með ristuðum kjúklinga- og beikonbitum í grænmetis- og ostasósu
25. apríl 2018

Tagliatelle með ristuðum kjúklinga- og beikonbitum í grænmetis- og ostasósu

Pasta er í miklu uppáhaldi hjá mér þar sem það býður upp á fjölmargar spennandi útfærslur af matreiðslu. Í þessum pastarétti leynist ostur sem ég held mikið upp á en það er piparosturinn góði, ásamt fleiri góðgæti sem mér finnst henta vel í svona ,,föstudags- kósý-huggulegheitsréttum“ nú eða bara hvaða vikudag sem er.

Með þessum rétti er fullkomið að bjóða upp á hvítlauksbrauð með rifnum mozzarellaosti. Þetta er uppskrift sem ég nota mikið í kennslu með börnum frá 10 ára aldri og gengur þeim mjög vel að baka það – með einhverri aðstoð að sjálfsögðu. Mæli með að þið prófið!

Tagliatelle með ristuðum kjúklinga- og beikonbitum í grænmetis- og ostasósu

fyrir 4 fullorðna

200 g beikon

500 g tagliatelle

2-3 kjúklingabringur

1 gulur laukur, sneiddur

2-4 hvítlauksrif

1 askja kirsuberjatómatar

Spergilkál, eftir smekk

Sykurbaunir, nokkrar

½  piparostur

3-4 dl matreiðslurjómi frá Gott í matinn

3-4  msk. rjómaostur frá Gott í matinn

1 sítróna, börkurinn rifinn gróft

Chiliflögur eftir smekk

Salt og svartur pipar

 

Sjóðið pastað samkvæmt leiðbeiningum. Skerið eða klippið beikonið í litla mola og steikið þá á háum hita þar til þeir eru orðnir stökkir. Látið fituna renna af bitunum á pappír. Skerið kjúklingabringurnar í litla bita og kryddið eftir smekk.

Skerið lauk og hvítlauk, spergilkál og tómata í fallega bita. Ég átti nokkrar sykurbaunir heima og lét þær fara með í réttinn en auðvitað má nota annað.  Brúnið kjúklinginn og steikið hann í gegn og kryddið hann með salt, svörtum pipar og nokkrum chiliflögum. Gott er að setja smá grænmetiskraft með á pönnuna. Setjið laukana saman við ásamt spergilkáli, tómötum og sykurbaunum. Lækkið hitann.

Hellið rjómann í pott og hitið hann. Skerið piparostinn í litla bita og setjið hann saman við ásamt rjómaostinum og látið bráðna. Þeytið létt í á meðan. Setjið kjúklinginn og grænmetið í rjómasósuna ásamt pastanu og blandið varlega.

Berið strax fram með stökkum beikonbitum, nýmöluðum svörtum pipar og auðvitað nýbökuðu hvítlauksbrauði.

----

Einfalt og fljótlegt hvítlauksbrauð

3 dl volgt vatn

½ dl matarolía

3 tsk. þurrger

½ tsk. salt

1 tsk. óreganó

1 dl rifinn mozzarellaostur

2 hvítlauksrif smátt skorin (eða eftir smekk)

5 dl hveiti  (til að byrja með – 1 eða 2 dl bætt við eftir þörfum á eftir)

 

Kveikið á ofninum og stillið hitann á 200 °C og blástur.

Hellið vatn í skál og setjið þurrgerið saman við ásamt salti. Hrærið aðeins í þessu og látið standa þar til gerið er búið að leysast upp. Skerið hvítlauksrifin á meðan gerið er að leysast upp. Skerið þau eins smátt og hægt er.

Blandið hvítlauk, óreganó, rifinn ost og hveiti saman í sér skál og hellið því svo saman við gervatnið og hrærið vel í svo allt blandist vel saman. Og já, þetta er smá klístrað -  bætið 1 dl af hveiti saman við og hrærið áfram.  Ef deigið er enn mjög klístrað þá er meira af hveiti bætt saman við og hnoðað áfram þar til deigið er þægilegt að koma við. Látið deigið hefast á hlýjum stað í 20-30 mínútur.  

Takið deigið úr skálinni, setjið það á hveitistráð borð og hnoðið það með léttar hendur. Skiptið deigið í fjóra parta.  Mótið bollur, kringlur eða fléttur. Leggið bökunarpappír á bökunarplötu. Setjið brauðin á plötuna og látið þau hefast í 20 -30 mínútur. Bakið brauðin í neðri miðjuna í 15-20 mínútur eða þar til þau eru byrjuð að verða gyllt á litinn.

Njótið vel!

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!