Theodóra J. Sigurðard. Blöndal
Tacobaka í kvöldmatinn
12. nóvember 2018

Tacobaka í kvöldmatinn

Matreiðsluglaðir krakkar og unglingar elda! 

Börn og unglingar gleðjast (eins og fullorðnir) mikið yfir þeim mat sem þau búa til sjálf. Það fylgir því líka mikil gleði að fá að bjóða upp á hann. Og þeim finnst hann sérstaklega góður og spennandi og borða hann auðvitað (oftast) með bestu lyst.

Tacoböku er einfalt að búa til og krakkar fara létt með það, þar sem þetta er einföld uppskrift. Þau sem eru yngri þurfa auðvitað einhverja aðstoð. Ég lét nemendur í 7. bekk búa þessa böku til og gekk það mjög vel -  þeim fannst bakan ,,ógeðslega góð“ eins og þau orðuðu það. Börn og unglingar geta verið nokkuð smámunasöm þegar kemur að lauk og kryddi en ég bið þau alltaf um að prófa að nota eitthvað af því, þótt það varla sjáist á pönnunni og hefur það virkað vel. Hvetjið þau endilega til að smakka oft á því sem verið er að matreiða þar til bragðið er til ánægju og allir sáttir.

Hér er ekkert flókið, bara fá hráefni og allt blandað, hnoðað, bakað og steikt.

Uppskriftin dugar fyrir eina stærri böku (bökuð í springformi u.þ.b. 22 cm. í þvermál) eða tvær minni (bakaðar í formum sem eru u.þ.b. 15 cm í þvermál).

Tacobaka

(ein stór eða tvær minni)

Bökubotn:

1 ½ dl hveiti

20 g smjör

½ dl mjólk

¾ tsk. lyftiduft
 

Fylling:

150 g nautahakk

½ lítill laukur, smátt skorinn

1 tsk. smjör

2 msk. tacokrydd

1 tsk. óreganó

1-2 dl niðursoðnir tómatar

Ofan á:

1 dl sýrður rjómi, frá Gott í matinn

1 dl rifinn ostur, frá Gott í matinn

 

Ofnhiti 180-200°C

Blandið öllum hráefnum, sem fara í bökubotninn, saman í stóra skál. Hnoðið í deig.

Bökubotn: Fletjið deigið út með kökukefli, passið að hafa hveiti undir deiginu svo það festist ekki við borðið. Deigið á að vera nokkuð þunnt og gott er að láta það passa í form sem er annað hvort 15 cm eða 22 cm í þvermál. Það getur auðvitað líka passað í önnur form. Setjið bökunarpappír undir deigið þegar búið er að fletja það út og leggið botninn með pappírnum undir í form eða á ofnplötu.

Fylling: Steikið laukinn upp úr smjöri. Bætið kryddi (taco-kryddi og óreganó) saman við ásamt nautahakki og steikið þar til hakkið er brúnað. Hrærið tómötum saman við. Smakkið til. Kannski þarf svartan pipar eða smá salt? Hellið nautahakksblöndunina yfir bökubotninn. Ef þú borðar ekki kjöt er hægt að nota hvaða grænmeti sem er í staðinn fyrir nautahakkið.  

Blandið sýrða rjómanum með næstum því öllum ostinum í skál og dreifið yfir hakkið.

Stráið afganginum af ostinum efst yfir og kryddið ef vill með auka óreganó.

Bakið neðarlega í ofninum í 15-25 mínútur eða þar til osturinn er fallega bráðnaður.

Berið fram með fetaosti og kaldri sósu að eigin vali, eða sýrðum rjóma.

 

Njótið vel,

matarást,

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!