Theodóra J. Sigurðard. Blöndal
Sumarlegt jarðarberjapæ
28. júní 2016

Sumarlegt jarðarberjapæ

Það er eitthvað svo sumarlegt við jarðarber og hindber! Hér er ég með uppskrift handa ykkur að dásamlega góðu jarðarberjapæi, sem auðvitað er einfalt að baka. Njótið vel.

 

Deig fyrir pæskelina

6 dl hveiti

2 tsk sykur

250 g kalt smjör

6 msk kalt vatn

2 tsk lyftiduft

 

Fylling

500 g jarðarber 

1 dl hindber

1 tsk vanillusykur

1/2 sítróna, börkurinn rifinn gróft

1 1/2 dl sykur

1 msk kartöflumjöl eða maizenamjöl

 

Til að pensla og skreyta

1 eggjarauða

2 msk sykur

Nokkur jarðarber

Flórsykur

 

Ofnhiti: 185 °C

 

Fylling:

Skerið jarðarberin í bita og setjið þau í skál með hindberjunum. Veltið þeim upp úr sykri, sítrónuberki, kartöflumjöl (eða maizenu) og vanillu. Setjið berin í kæli og látið standa þar á meðan þið búið til pæskelina.

Pæskel

Skerið smjörið í bita og setjið það ásamt hveiti, lyftidufti og sykri í matvinnsluvél. Notið hnífinn og hrærið í deig. Bætið vatni saman við og blandið áfram þar til kominn er góður deigklumpur.

Setjið deigið í kæli og látið hvíla þar í um 20 mínútur. 

Finnið til pæform.

Notið kökukefli og fletjið út um 3/4 (notum afganginn í skraut) af deiginu frekar þunnt og þekið pæformið með því. Mér finnst gott að nota bökunarpappír neðst í forminu.  Látið deigið ná vel upp á kantana og skerið það snyrtilega í kring. 

Það þarf að forbaka pæskelina í rúmlega 10 mínútur og það er gert með því að tylla bökunarpappír í botninn á forminu og svo eru sett t.d. hrísgrjón (ósoðin) eða kjúklingabaunir (ósoðnar) ofan á pappírinn. Bakið pæskelina þannig í rúmlega 10 mínútur. Þá er pappírinn fjarlægður (ásamt grjónum) og skelin bökuð áfram í um 10 mínútur án grjóna. Takið hana svo úr ofninum.

Sækið fyllinguna úr kælinum. Látið renna örlítið af henni. Þegar fyllingin er sett í pæskelina og pæið bakað myndast vökvi frá berjunum. Ef pæið fær að standa nokkra klukkutíma mun fyllingin stirðna aðeins. Hellið fyllingunni í skelina og dustið yfir með kartöflumjöli.

Það sem eftir er af deiginu er ætlað til að skera í lengjur og raða fallega yfir fyllinguna. Hægt er að flétta lengjurnar saman á ýmsan máta. Ég lagði lengjurnar saman sitt á hvað. Að lokum er deigið penslað með eggi og sykrinum stráð yfir. 

Bakið pæið í um 20 mínutúr eða þar til það hefur fengið á sig fallegan gylltan lit.

Látið pæið kólna áður en það er skreytt með berjum, blómum og flórsykri sem dustað er yfir pæið rétt áður en það er borið fram.

Það er upplagt að bjóða upp á þeyttum rjóma, vanillusósu eða vanilluís með pæinu.

 

Verði ykkur að góðu.

Matarást,

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!