Theodóra J. Sigurðard. Blöndal
Súkkulaðibrjálaði sinnum fimm
30. september 2015

Súkkulaðibrjálaði sinnum fimm

  

Súkkulaði súkkulaði, súkkulaði… Súkkulaði er alltaf við hæfi að mínu mati… Þannig að ég býð ykkur upp á súkkulaðikökuveislu í dag. Það var erfitt að velja hvaða fimm súkkulaðikökur fengu að njóta sín hér á síðunni að þessu sinni.

Þetta eru Klessukökubrúnkur með súkkulaðikremi, Klessusúkkulaðikaka með hafrakaramelluglassúr, Klessukaka alveg venjuleg, Besta klessusúkkulaðikaka með súkkulaðikaramellu og síðast en ekki síst Klessusúkkulaðikaka með kókóskremi!

Þær eru að sjálfsögðu einfaldar, góðar og fljótlegar - móttóið mitt varðandi kökugerð - alveg eins og kökur eiga að vera og eru þær í miklu uppáhaldi hjá mer! Gjörið svo vel!

-----

 

Klessukökubrúnkur með saltaðri súkkulaðitrufflukremi

Það er erfitt að standast þessar - mjúkar samt seigar og að sjálfsögðu aðeins klesstar. Silkimjúk súkkulaðitruffla sem smurð er yfir kökuna og þú ræður að sjálfsögðu hvort þú stráir ögn af grófu sjávarsalti yfir kökurnar.

Hægt er að nota dökkt eða ljóst súkkulaði í kremið. Það er mjög gott að byrja á því að gera kremið því það þarf að standa í kæli og þykkna.

Ein uppskrift gerir u.þ.b.  20 stk.

 

Kaka

Ofnhiti: 175 °C

 

125 g brætt smjör

2 ½ dl sykur

1 dl kakóduft

salt á hnífsoddi

2 tsk vanillusykur eða dropar

2 egg

1 ½ dl hveiti

 

Súkkulaðitruffla/krem - gott að byrja á þessari

 

1 ½ dl rjómi

200 g suðusúkkulaði, rjómasúkkulaði eða hvítt súkkulaði

½ tsk smjör

Ögn af grófu sjávarsalti til skreytingar

 

Kaka, aðferð:

Bræddu smjörið í pott og bættu við sykur, kakóduft, salt og vanillusykur. Blandaðu vel. Eggin fara í eitt í einu. Hrærðu vel á milli. Síðast bætir þú hveiti við og blandar því varlega saman við.

Náðu í ferkantað bökunarform (18x25 cm) eða kringlótt form. Settu bökunarpappír í botninn. Það gerir það svo miklu auðveldara að eiga við kökuna eftir að hún er bökuð. Helltu deiginu í formið og bakaðu hana í miðju ofnsins 20-25 mínutur við 175°C. Passið endilega að ofbaka ekki! Látið hana kólna í forminu þegar hún er tilbúin.

 

Súkkulaðitruffla, aðferð:

Helltu rjómanum í pott og láttu suðuna koma upp. Taktu pottinn af hellunni og láttu súkkulaðið út í ásamt smjöri. Hrærðu í svo súkkulaðið bráðnar saman við rjómann. Láttu súkkulaðiblönduna kólna og hún mun þykkna vel á meðan. Þetta tekur alveg klukkutíma og rúmlega það. Hrærðu í kreminu af og til.

 

Smyrðu kremið yfir kökuna þegar það er tilbúið og stráðu sjávarsaltflögum yfir. Þessi kaka verður eins og bestu konfektmolar ef hún fær að standa í ísskáp í nokkra klukkutíma - jafnvel fram á næsta dag.

-----

 

Klessusúkkulaðikaka með hafrakaramelluglassúr

Þessi er í miklu uppáhaldi hjá mér enda alveg gómsæt á bragðið og líka svo ótrúlega fljótleg að hræra í.

 

Kaka

Ofnhiti: 175 °C

 

50 g smjör

1 egg

1 1/2 dl sykur

salt á hnífsoddi

2 msk kakóduft

1 dl hveiti

1/2 dl síróp

 

Hafrakaramella

100 g smjör

1 dl sykur

1/2 dl síróp

1/2 dl rjómi

1 dl haframjöl

1 dl hveiti

 

Aðferð:

Taktu til kringlótt springform og settu í það bökunarpappír - eða smyrðu það og stráðu í það t.d. kókósmjöl.

Bræddu smjörið í pott. Þeyttu egg og sykur ljóst og létt. Helltu smjörinu út í og blandaðu vel. Mældu hin hráefnin og blandaðu þeim saman við eggjablönduna. Hrærðu deigið vel. Helltu deiginu í formið.

 

Núna býrð þú til hafrakaramelluna. Hún á að hellast yfir kökudeigið.

Bræddu smjörið í pott og blandaðu svo saman við hin hráefnin öll í einu. Láttu suðuna koma upp og hrærðu í af og til. Karamellan þykknar mjög fljótt og þegar það gerist er kremið tilbúið. Helltu því yfir allt kökudeigið í forminu.

Bakaðu kökuna neðarlega í ofninum í 25-30 mínútur við 175°C.

Kakan er ljómandi góð beint úr ofninum en hún stendur einnig fyrir sínu daginn eftir.

-----

 

Klessukaka þessi venjulega - bara eins og hún er

Þessi kaka hefur fylgt mér í mörg ár. Reyndar alveg síðan í „gamla“ daga. Að sjálfsögðu er hún fljótleg og hrikalega góð! Deigið er hrært í pottinum og það gerir hana enn einfaldari! Klesst, mjúk og seig! Hvað er betra?

Þetta verða u.þ.b. 10-14 sneiðar

 

Kakan

Ofnhiti: 175 °C

 

100 g brætt smjör

2 1⁄2 dl sykur

2 egg

1 dl hveiti

3 msk kakóduft

1 tsk vanilludropar

 

Taktu til hringlaga form. Tylltu bökunarpappír í formið eða smyrðu það með feiti og stráðu hveiti eða kókósmjöli í það.

Bræddu smjörið í potti. Taktu pottinn af hitanum. Helltu sykri saman við smjörið, hrærðu vel þannig að hann bráðni. Bættu við eggjum og hrærðu vel á milli. Síðast er hveiti, kakódufti og vanillu blandað saman við og hrært í gott deig. 

Helltu deiginu í formið og bakaðu kökuna neðarlega í ofninum í um 15 mínútur við 175°C.

Láttu kökuna kólna áður þú berð hana fram með t.d. ís, ferskum ávöxtum, þeyttum rjóma eða grískri jógurt. Eða einungis með glasi af ískaldri mjólk. 

-----

 

Besta klessusúkkulaðikaka með súkkulaðikaramellu

Þessi heitir einungis ,,besta klessukakan” í uppskriftabókinni minni. Þarf ég að segja meir?

 

Kaka

Ofnhiti: 175 °C

 

3 egg

2 dl sykur

150 g brætt smjör

2 dl hveiti

1 dl kakóduft

2 tsk vanillusykur eða dropar

salt á hnífsodd

 

Súkkulaðikaramellukrem

1 1/2 dl rjómi

1 dl sykur

1 msk kakóduft

1 msk smjör

 

Náðu í hringlaga form og tylltu bökunarpappír í það.

Þeyttu egg og sykur þar til það er ljóst og létt.

Bræddu smjörið í potti.

Blandaðu þurrefnunum saman, blandaðu þeim við eggjasykurblönduna og síðast bætir þú smjörinu saman við og veltir þessu öllu varlega saman.

Helltu deiginu í formið og bakaðu kökuna neðarlega í ofninum í 20-30 mínútur við 175°C.

Láttu hana kólna aðeins áður en þú stingur henni í frystinn.

Já - í frystinn með hana!

 

Kremið, aðferð:

Settu öll hráefnin í pott og láttu suðuna koma upp. Lækkaðu hitann örlítið. Láttu kremið sjóða í smá stund, hrærðu af og til og eftir smá stund hefur myndast karamella.Taktu pottinn af hitanum og láttu karamelluna kólna. Hrærðu í henni inn á milli. Þegar karamellan er orðin þykk og fin, dreifir þú henni yfir kökuna sem er orðin ísköld í frystinum.

Kakan er enga stund að þiðna og það er alveg upplagt að geyma hana í frystinum og kippa út ef einhver skyldi kíkja óvænt í kaffi!

-----

Klessusúkkulaðikaka með kókóskremi

Alveg næstum því eins og hin gamla, góða ,,sjónvarpskaka” - bara þessi er með dúnamjúkum súkkulaðikökubotni. Kakan er ljómandi góð daginn eftir að hun er bökuð... og daginn þar á eftir… ef eitthvað verður eftir af henni það er að segja.

 

Kaka

Ofnhiti: 175 °C

 

175 g brætt smjör

3 egg

4 dl sykur

1 tsk vanillusykur eða vaniludropar

örlítið salt

1 1/4 dl kakóduft

2 1/4 dl hveiti

 

Kókoskrem

120 g smjör

2 1/2 dl rjómi

1 dl síróp

2 1/2 dl sykur

300 - 400  g rifinn kókos

 

Taktu til spring form og tylltu í það bökunarpapír. Bræddu smjörið. Þeyttu egg og sykur létt og ljóst. Blandaðu smjörinu saman við. Hrærðu saman við vanillusykur, salt, kakóduft og hveiti. Hrærðu því varlega saman og helltu svo deiginu í formið. Bakaðu kökuna neðarlega í rúmlega 20 mínútur við 175°C. Gerðu kókoskremið á meðan.

 

Kókoskrem, aðferð:

Bræddu smjörið, bættu svo hinum hráefnunum saman við og láttu suðuna koma upp. Hrærðu í kreminu og lækkaðu hitann. Láttu smásjóða þar til kremið hefur þykknað aðeins.

Taktu kökuna út úr ofninum eftir 20 mínútur og dreifðu kreminu varlega yfir kökuna. Smeygðu henni aftur í ofninn og bakaðu hana áfram í 10-14 mínútur. Kremið á að verða gyllt. 

Látið kólna örlítið áður en þið berið kökuna fram.

 

Njótið vel!
Súkulaðikveðjur,

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!