Theodóra J. Sigurðard. Blöndal
Súkkulaði- og karamellukaka og sykurhúðaður appelsínubörkur
31. október 2017

Súkkulaði- og karamellukaka og sykurhúðaður appelsínubörkur

Passar svo vel saman – er það ekki?

Ég hef alltaf kallað þessa köku sweet & sticky - enda er hún útlitslega voðalega sæt og líka klístruð. Kakan hefur fylgt mér í mörg ár og ég var búin að steingleyma henni þegar ég rakst á uppskriftina í einni af þessum gömlu uppskriftarbókum hjá mér.

Kakan er að sjálfsögðu ótrúlega fljótleg og einföld að búa til þar sem hún er hrærð í potti. Ég elska kökur sem eru hrærðar í potti - lítið uppvask og ekkert vesen!

Gott er að búa karamelluna til áður en kakan er gerð. Henni er síðan hellt yfir kökuna eftir að hún hefur bakast í 15 mínútur. Við það læðist karamellan inn í kökuna og þannig verður kakan svona ljúffengt klístruð og gómsæt.

Berið kökuna fram með sykurhúðuðum apelsínubitum, ís, vanillusósu, þeyttum rjóma eða með enn meiri karamellusósu fyrir þá sem elska karamellusósu. Apelsínusælgætið passar enn fremur einstaklega vel borið fram með kaffibolla. 

 

Sweet and sticky - sæt og klístruð súkkulaði og karamellukaka

 

75 g smjör

100 g súkkulaði

3 egg

3 dl sykur

1 1/2 dl hveiti

1 tsk. salt

1 tsk. vanilludropar eða vanillusykur

 

Ofnhiti: 175 °C

Tími: 15 mínútur + 15 mínútur 

Aðferð: Mælið smjörið, setjið það í pott og látið það bráðna. Súkkulaðið er sett saman við, potturinn tekin af hitanum og súkkulaðið látið bráðna rólega í smjörinu. Gott er að láta þessa blöndu kólna aðeins áður en eggin eru sett saman við.

Setjið eitt egg í einu út í súkkulaðismjörið og þeytið það saman við með handþeytara. 

Hrærið næst sykrinum saman við og svo hveiti, salti og vanilludropum eða vanillusykri.

Hellið deigið í hringlaga form sem búið er að setja bökunarpappír í. Mér finnst alltaf best að tylla bökunarpappír í formin því það auðveldar allt svo mikið. Ef stærri form eru notuð, þá styttist bökunartíminn töluvert.

Bakið kökuna í miðjunni á ofninum og kippið henni út eftir 15 mínútur. Hellið karamellunni yfir og setjið strax aftur í ofninn og bakið áfram í um 15 mínútur.

 

 

Karamellusósa

120 g smjör

115 g púðursykur

vanilludropar

2 dl rjómi frá Gott í matinn

 

Allt hráefni sett í pott og látið bráðna rólega saman. Þegar byrjað er að sjóða, lækkið hitann og látið sjóða í nokkrar mínútur þar til karamellan er byrjuð að þykkna. Takið af hitanum og hellið yfir kökuna.

Karamellunni er hellt yfir kökuna og kakan bökuð í 15 mínútur til viðbótar.

Kakan er best ef hún fær að kólna eitthvað áður en hún er borin fram og en hún er einnig dásamlega góð daginn eftir.  

 

Sykurhúðaður appelsínubörkur

Það er upplagt að nota börkinn af apelsínum (t.d. eftir að hafa notað apelsínur í búst) og búa til fallegt og bragðgott sælgæti úr honum.

 

3 appelsínur

3 dl sykur

180 ml vatn

 

Skerið börkinn í nokkuð mjóar ræmur.

Setjið börkinn í pott og hellið kalt vatn yfir börkinn. Látið suðuna koma upp.

Endurtakið þetta 4 sinnum (það tekur enga stund).

Dreifið börkinn á bökunarpappír og látið hann þorna aðeins.

Mælið sykur og vatn og hellið í pott.

Látið suðuna koma upp og sjóðið á vægum hita í um 6-8 mínútur. Ekki hræra í þessu, þá gæti sykurinn kristallast og það viljum við ekki.

Setjið börkinn ofan í sykurlöginn, lækkið hitann aðeins og látið sjóða í rúmlega 45 - 60 mínútur eða þar til börkurinn er orðinn glær og sykurinn næstum því orðinn að engu.

Setjið börkinn á bökunargrind og látið hann þorna  þar í 4-5 klukkutíma eða yfir nótt.

Veltið apelsínubörkinn upp úr sykri. Það er líka mjög gott að bræða smá súkkulaði og dýfa helmingnum af hverjum bita í því. Látið kólna.

    

Berið fram með súkkulaðikökunni eða með kaffibolla.

 Njótið vel!

Matarást,

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!