Theodóra J. Sigurðard. Blöndal
Spesíur með jarðarberjatoppi
14. desember 2016

Spesíur með jarðarberjatoppi

Ég má til með að deila þessari uppskrift með ykkur. Ein dásamleg kona kynnti þessar frábæru smákökur fyrir mér en þær sóma sér vel með jólakaffinu. Þær eru jólalegar og fallegar að sjá og að sjálfsögðu einfaldar og fljótlegar í framkvæmd og bragðast afar vel.

Ef afgangur verður af sultutauinu er upplagt að nota það t.d. með jógúrt, hafragraut eða ofan á pönnukökur.

Kökudeig

4 ½ dl hveiti

2 dl sykur

1 msk. vanillusykur (eða vanilludropar)

200 g smjör við stofuhita

 

Sultutau

500 g frosin jarðaber (eða fersk)

1-2 dl sykur (eftir smekk)

 

Skraut

Perlusykur

 

Ofnhiti: 200 °C

 

Sulta

Byrjið á að sjóða jarðarber og sykur saman í rúmlega 12-15 mínútur eða þar til jarðarberin eru orðin mjúk. Látið kólna og maukið svo með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Það er allt í góðu þótt „sultan“ er ekki sultuleg í laginu.  Látið sultuna kólna.

 

Kökudeig

Setjið hveiti, sykur, smjör og vanillu í matvinnsluvél (eða í hrærivél) og hrærið í deig.

Skiptið deiginu í fjóra bita og rúllið úr hverjum bita mjóar lengjur. Mér finnst gott að hafa þær frekar mjóar u.þ.b. 2 cm í þvermál.

Rúllið hverja lengju upp úr perlusykri og pakkið lengjunni inn í bökunarpappír. Kælið lengjurnar í að minnsta kosti 30 mínútur.

 

 

 

Hitið ofninn.

 

Skerið hverja lengju í um 1-2 cm (eftir smekk) þykkar sneiðar.

Setjið hverja sneið á ofnplötu (með bökunarpappír) og þrýstið litla holu í hverja sneið með þumalfingri og fyllið holuna með sultu.

Bakið kökurnar í um 8-12 mínútur eða þar til þær eru rétt aðeins að byrja verða gylltar í kantinum.

Látið kólna örlítið áður en þær eru bornar fram.

Verði ykkur að góðu og gleðilega hátíð!

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!