Theodóra J. Sigurðard. Blöndal
Plokkfiskur og skyrkaka brulee
23. júlí 2018

Plokkfiskur og skyrkaka brulee

Plokkfiskur er ekki bara plokkfiskur (og skyrkaka Brulee í eftirrétt)

Ég fékk nokkra erlenda gesti í heimsókn um daginn og vildi auðvitað gefa þeim gott að borða. Íslenskur heimilismatur varð fyrir valinu og í eftirrétt eitthvað með íslensku ívafi og bragði. Plokkfiskur og skyrkaka! Gestirnir voru yfir sig hrifnir af plokkfiskinum og seytt rúgbrauðið vakti mikla lukku. Eftirrétturinn kláraðist upp til agna enda nokkuð léttur í maga með góðum kaffibolla.

Plokkfiskur er ekki bara plokkfiskur, sennilega hafa flestir sína hentisemi þegar kemur að því að matreiða hann. Þetta er mín leið og smakkast fiskurinn alltaf mjög vel. Mér finnst mjög gott að blanda saman ýsu með öðrum tegundum af fiski og hef ég stundum notað löngu, lax og nætursaltaða ýsu. Ég mæli með að prófa það. Auðvitað ber ég fram rúgbrauð með plokkfiskinum og nóg af smjöri með. Skyrkakan er mjög hefðbundin en í hana nota ég skyr með creme brulee bragði sem kemur afar vel út með örlitlum léttþeyttum rjóma og ferskum ávöxtum.

Plokkfiskur

(4 - 6 manns)

1 kg ýsuflök

½ kg nætursöltuð ýsuflök

1 kg kartöflur, soðnar

4 - 6 gulir laukar

100 g smjör

Mjólkursósa

75 - 100 g smjör

2 – 2 ½  dl hveiti

3 dl fiskisoð

8 dl nýmjólk

3-4 msk. rjómaostur frá Gott í matinn (eða eftir smekk)

Svartur pipar, grófmalaður og fínmalaður eftir smekk

Jurtasalt (herbamare) – eða sleppa því alveg

Best er að byrja á því að sjóða kartöflurnar. Þær mega gjarnan vera kaldar þegar þær fara í plokkfiskinn og er það smekksatriði hvort hýðið er haft á eða ekki. Ég læt hýðið alltaf fylgja með.

Setjið vatn í pott fyrir fiskinn. Fiskurinn er skorin í bita og soðinn í nokkrar mínútur. Takið fiskinn úr vatninu, setjið hann til hliðar og haldið eftir um 3-4 dl fiskisoði.

Skerið laukinn í sneiðar og/eða bita. Bræðið allt (100 g) smjörið (já, mér finnst vera ljómandi gott að nota mikið smjör í laukinn, en auðvitað er hægt að minnka magnið) og mýkið laukinn í því þar til hann er orðinn glær. Setjið laukinn til hliðar. Núna eru kartöflurnar tilbúnar, fiskurinn soðinn og laukurinn tilbúinn.

Mjólkursósa

Bræðið smjörið í stórum potti og bætið hveitið saman við. Þeytið þessu saman í þykka bollu. Lækkið hitann og bætið fiskisoðinu saman við. Þeytið allan tímann á meðan bollan fer að þykkna og lækkið hitann enn frekar ef þörf er á. Um leið og sósan er byrjuð að þykkna er um helmingnum af mjólkinni hellt saman við. Þeytið áfram þar til sósan fer aftur að þykkna. Mér finnst gott að taka pottinn af hitanum stutta stund ef sósan er að þykkna of hratt og hræri í á meðan en set hann svo aftur á hitann. Þá er aðeins meira af mjólk hellt saman við og sósan er þeytt áfram þar til þykktin er orðin hæfilega mikil að ykkar mati.  Setjið rjómaostinn saman við og hrærið svo hann bráðni í sósunni. Mér finnst gott að hafa sósuna mikið þykka þar sem hún þynnist aðeins þegar fiskurinn og laukurinn er settur saman við hana.

Í lokinn...

Þegar sósan er orðin hæfilega þykk er potturinn tekinn af hitanum og laukurinn settur saman við ásamt fisknum. Blandið saman. Skerið kartöflurnar í minni bita og setjið þær út í. Hrærið saman og kryddið eftir smekk. Á mínu heimili skiptir svartur pipar mjög miklu máli og er hann notaður óspart.

Berið fram með rúgbrauði og smjöri. Verði ykkur að góðu og njótið.

 

Skyrkaka að mínum hætti

4-6 manns

1 pakki Lu bastogne kex

3 - 4 Prins Pólo stærri gerðin

125 g brætt smjör

2 msk. olía

¼ dl rjómi frá Gott í matinn, léttþeyttur

1 ½ stór dós Ísey skyr creme brulee (750 g)

2 tsk. vanillusykur

Byrjið á að mylja Bastogne-kexið með Prins Pólo kexinu mjög smátt annað hvort í matvinnsluvél eða með því að setja það í poka og svo kremja það með t.d. kökukefli. Setjið mylsnuna í skál. Bræðið smjörið og blandið olíuna saman við smjörið. Hellið smjörið út í kexmylsnuna og blandið saman. Setjið mylsnuna í fallegt form og þrýstið mylsnunni yfir botninn og jafnvel aðeins upp með hliðunum. Látið botninn kólna í kæli.

Þeytið rjómann létt og blandið skyrinu saman við. Smakkið til með vanillusykri. Hellið skyr-rjómanum yfir botninn og setjið hann aftur inn í ísskáp. Gott er að geyma kökuna í kælinum í nokkra klukkutíma. Rétt áður en kakan er borin fram er hún skreytt með ferskum ávöxtum t.d. jarðarberjum og bláberjum. Það er auðvitað hægt að skreyta með nánast hverju sem er og að sjálfsögðu það sem hver og einn elskar mest!

 

Njótið vel!

Matarást,

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!