Theodóra J. Sigurðard. Blöndal
Piparkökuskreyting eða bara piparkökur...
04. desember 2015

Piparkökuskreyting eða bara piparkökur...

 

Úr þessu piparkökudeigi er hægt að búa til fallega jólaskreytingu, lítið hús eða bara piparkökur til að skreyta og úða svo í sig með ískaldri mjólk eða heitu súkkulaði.

Ég bý til jólaskreytingu úr þessum kökum, nota stórt karton og bý til ,,strút” eða kramarhús. Ég baka piparkökurnar (ég geri stjörnur), skreyti þær með glassúr og festi þær á kramarhúsið með bræddum sykri. Púðra með flórsykri yfir fallegu stjörnurnar mínar, set þær á fallegt fat og þá er það komið! Ilmandi piparkökustytta! Það þarf u.þ.b. 30 kökur í þessa skreytingu.

Uppskrift að piparkökum

Þegar ég gerði þessa uppskrift þá gleymdi ég að setja bæði egg og mjólk í deigið - komst að því daginn eftir og það hafði bara alls ekkert að segja held ég!

Til að gera kökurnar enn skemmtilegri á bragðið mæli ég með að bæta við smátt rifnu hýði af einni appelsínu.

 

125 g smjör við stofuhita (lint og mjúkt)

2 dl sykur

1 1/4 dl síróp

1 egg

3/4 dl mjólk

1 msk kanill

1 msk engifer

1 msk kardemomma

1/2 msk negull

2 tsk matarsódi

7-8 dl hveiti

 

Aðferð:
Þeytið smjör og sykur vel og lengi þar til sykurinn hefur leysts upp. Bætið sírópi við og þeytið áfram. Já og svo egginu ásamt mjólkinni ef þið viljið hafa það með ;) !!

Blandið hveiti, kryddum og matarsóda saman. Hrærið því saman við smjörblönduna og þeytið í gott deig. Ef það loðir eitthvað illa saman er hægt að bæta við örlitlu sírópi til viðbótar.

Þegar deigið er tilbúið er því vafið inn í plastfilmu og geymt í kæli í 12-24 tíma.

Hitið ofnin í 200°C. Fletjið út deigið og mótið úr því það sem þið ætlið ykkur. Stjörnur eða hús? Það er fallegt að vera með stórar stjörnur neðarlega og svo vera með minni ofar.

Bakið kökurnar og látið þær kólna vel áður en þær eru skreyttar með glassúr.

  

Glassúr

 

3 eggjahvítur

4-5 dl flórsykur

 

Þeytið vel saman og bætið við flórsykri eftir þörfum þar til glassúrinn er orðin þykkur. Setjið hann í sprautupoka og skreytið! 

Að búa til piparkökuskreytinguna

 

Rúllið kartoninu saman í ,,strút” eða kramarhús. Ég hef það um 30-40 cm á hæð.

Festið það saman með lími eða með límbandi. Látið svo á fallegan disk.

 

Sykurbráð

Hitið pönnu og hellið á hana svona 3-4 dl af sykri. Látið sykurinn bráðna.

Smyrjið kökurnar örlítið að aftan með sykurbráðinni og tyllið kökunum neðst á kramarhúsið. Haldið áfram og festið kökurnar fallega koll af kolli þar til kramarhúsið er þakið piparkökum.

Dustið flórsykri yfir, skreytið ef þið viljið eitthvað meira og setjið á fallegan stað. 

  

Matarást og gleðilega hátíð,

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!