Theodóra J. Sigurðard. Blöndal
Osta- og tómatabakað pasta ásamt Pannacotta
01. apríl 2015

Osta- og tómatabakað pasta ásamt Pannacotta

Ofnbakað pasta með helling af ostum, smá tómötum og eitthvað af kryddi - hvernig hljómar það? Má til með að segja að rétturinn er líka einfaldur og fljótlegur - eitthvað sem kemur sér stundum vel veit ég. Endilega notið afgangsosta sem þið eigið til. Það sem ég sting upp á eru aðeins tillögur og það á líka við um hlutföllin af ostum. Prufaðu þig áfram!

Ofnbakað pasta

4 dl rjómi eða helmingur rjómi og helmingur mjólk eða matreiðslurjómi…

1 dós niðursoðnir saxaðir tómatar

50 g rifinn piparostur

50 g rifinn Mexíkóostur

20 g rifinn gráðaostur

1/2 - 1 poki rifinn mozarellaostur

2 msk rjómaostur

ögn af salti

ögn af svörtum pipar

nokkur fersk basilblöð ef þau eru til

400 g pasta (penne, skrúfur eða fiðrildi)

smjörklípur eftir smekk

 

Aðferð:

Stilltu hitann á ofninum á 220°C.

Láttu vatn í pott til að sjóða pasta í. Athugið að pastað á aðeins að sjóða í um 4 mínútur. Það klárast að sjóða síðar í ofninum.

Blandaðu öllu hráefninu (en ekki pasta og smjöri) saman í skál.

Þegar pastað er búið að sjóða í um 4 mínutur hellir þú því í sigti en síðan í skálina með ostunum og því öllu - hrærðu til að allt blandist vel saman.

Helltu í ofnfast mót, dreifðu aðeins af rifnum osti yfir og bakaðu í sjóðheitum ofninum í mögulega 8-12 mínútur þar til það er "búblandi" og kraumandi.

Berðu þessa dásemd fram með fallegu salati eða bara eina og sér.

 

-----

 

Pannacotta pæ með hindberjasósu

Pannacotta er á listanum mínum yfir mat sem ég elska mest af öllu í öllum heiminum. Þegar ég uppgötvaði þetta pæ þá vissi ég að þetta gat bara verið gott. Sem er alveg dagsatt. Það er mjög einfalt að skreyta það á fallegan hátt þannig að það sómir sér vel á hvaða veisluborði sem er. Það er líka einfalt í gerð. Sem er bónus ;)

 

Botninn

12 hafrakex að eigin vali (t.d. haustkex eða digestiv)

75 g brætt smjör

 

Finndu form til að byrja með - mögulega smelluform sem er 20-23 cm á breidd. Klæddu það með bökunarpappir - þá er svo einfalt að ná því úr forminu án þess að allt fari i óefni.

Kexkökurnar fara í matvinnsluvél og verða að mylsnu eða það er líka hægt að kremja þær í skál með tilheyrandi látum.

Bræddu smjörið og helltu því saman við mylsnuna. Blandaðu því vel saman og leyfðu kexinu að draga í sig smjörið.

Settu mylsnusmjörið í bökunarformið og þrýstu því varlega út í kantana en einnig aðeins upp á brúnirnar á forminu. Þannig að þegar pannacottafyllingin fer í formið þá fer ekkert til spillis eða út fyrir.

Núna er gott að setja formið í kæli einhvern tíma til þess að botnin harðni. Það verður mun auðveldara að hella fyllingunni yfir botninn ef hann er kaldur.

 

 

Pannacotta (soðinn rjómi)

 

5 dl rjómi

1 dl sykur

4 tsk gelatinduft eða 4 gelatinblöð

100 g hvítt súkkulaði - ef þú átt það til - annars skiptir það engu

 

Helltu rjómanum í pott ásamt sykrinum og láttu suðuna koma upp.

Ef þú ætlar að nota gelatinblöð leggur þú þau í bleyti og lætur þau bráðna í vatnsbaði og hellir svo saman við rjómann. Ef þú notar gelatinduft notar þú eina tsk af dufti á móti hverju blaði sem þú notar. 1 tsk af gelatindufti á móti 1 msk af köldu vatni er látið bólgna út smá stund og síðan er það látið bráðna í heitu vatni og hellt saman við rjómann og hrært vel.

Ætlar þú að nota hvítt súkkulaði? Það er sett út í heitan rjómann og látið bráðna.

Rjómablandan er látin kólna frekar vel áður en henni er hellt í pæ-skelina. Settu pæ-ið varlega inn í kæli aftur og þar á það að kólna í allavega 4 tíma.

 

Skreytingar

Hindber
Möndluflögur

 

Eins og sést notaði ég hindber og lagði möndluflögur í kring þannig að þær mynduðu blóm.

Einfalt og fallegt - er það ekki?

 

Hindberjasósa

 

300 g frosin hindber

1 dl flórsykur

örlítið vatn

 

Settu hindberin ásamt flórsykri og örlitlu af vatni í pott og láttu suðuna koma upp. Mér finnst ágætt að gefa þessari sósu smá ,,sviss” með annaðhvort töfrasprota eða í matvinnsluvél til að blanda öllu vel saman áður en mér finnst hún tilbúin.

Matarást, 
Tedda

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!