Theodóra J. Sigurðard. Blöndal
Marsípankaka Teddu
16. febrúar 2017

Marsípankaka Teddu

Marsípan er nokkuð sem ég á erfitt með að standast og elska ég allt sem er marsípantengt.

Hér er uppskrift að köku sem sómir sér sérstaklega vel á hvaða veisluborði sem er og er alveg tilvalið að bjóða upp á í t.d. fermingarveislum sem fara að nálgast. Hægt er að skreyta kökuna eins og hverjum þykir fallegt en hér sýni ég tvær útfærslur á því. Önnur er með glassúr en hina skreytti ég með flórsykri og ferskum jarðarberjum. Botninn er einfaldur og er svipaður og deigið sem notað er t.d. fyrir spesíur.

Fyllingin er svo sannarlega gómsæt og samanstendur af marsípani, smjöri og eggjum. Mér finnst erfitt að finna gott marsípan í búðum og reyni ég að nota marsípan sem er með hátt hlutfall af möndlum í (t.d. 50-70 %).

 

Uppskrift

Ofnhiti: 180 °C

Bökunartími: 35-40 mínútur

 

Botn

5 dl hveiti

1 ½ dl sykur

200 g smjör við stofuhita

2 tsk. vanillusykur

 

Takið til smelluform og tyllið í það bökunarpappír svo auðvelt verði að lyfta kökunni úr forminu.

Stillið ofnhitann.

Setjið hráefnin í matvinnsluvél. Keyrið vélina þar til deig hefur myndast. Það er gott að hella deiginu í skál og hnoða það léttilega með höndunum. Við það hitnar smjörið aðeins meira og deigið verður fastara.  Að sjálfsögðu er hægt að hnoða deigið með höndunum ef engin matvinnsluvél er til.

Látið deigið hvíla á meðan þið hrærið í fyllinguna.

 

Fylling

200 g marsípan, rifið á rifjárni

100 g smjör við stofuhita

2 egg

Möndludropar eftir smekk eða um 2-4 tsk.

 

Setjið marsípan í skál ásamt smjöri og þeytið hressilega saman með rafmagnsþeytara.

Bætið eggjum við, einu í einu ásamt möndludropum og þeytið áfram þar til þetta hefur blandast

saman. Núna myndast kremkennd fylling sem bragðast mjög vel.

 

Takið deigið úr kælinum. Gott er að fletja það aðeins út í hringlaga form – þannig kemst það á auðveldari hátt fyrir í smelluforminu.

Leggið það í botninn á forminu og þrýstið því upp eftir hliðunum á því. Mögulega þarf að skera það eitthvað til. Ég læt deigið ná u.þ.b. 2 cm upp á hliðar formsins.

 

Hellið marsípanfyllingunni í formið og dreifið úr henni.

 

Bakið neðarlega í ofninum í 35-40 mínútur.

Látið kökuna kólna vel áður en hún er skreytt með t.d. glassúr, flórsykri eða ávöxtum.

 

 

Glassúr

3 dl flórsykur

4-5 tsk. vatn

möndludropar (má sleppa)

(matarlitur)

Blandið þessu saman í skál. Hrærið í með gaffli þar til þykktin er eins og þið viljið. Dreifið yfir kökuna.

 

Njótið vel!

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!