Theodóra J. Sigurðard. Blöndal
Ljúffengar og léttar veitingar í veislur
22. maí 2018

Ljúffengar og léttar veitingar í veislur

Er veisla framundan? Það er gaman að bjóða upp á léttar, fallegar og bragðgóðar veitingar þegar boðið er í hátíðlega veislu eða í matarboð. Fingramatur hentar vel ef veislan er ,,standandi“  og gestir þurfa að halda á t.d. bæði glasi og diski. Litlar brauðsneiðar (crostini) með fallegu, mismunandi áleggi er skemmtilegt og auðvelt að búa til og vekur mikla ánægju og hentar einmitt mjög vel sem fingramatur. Látið hugmyndaflugið ráða og verið óhrædd við að prófa ykkur áfram. Best er að undirbúa sig vel fyrirfram með því að vera með allt hráefnið tilbúið þannig að einungis þarf að skreyta brauðin rétt fyrir veisluna.

Ristað snittubrauð ,,crostini“

Stillið ofnhita á 180 °C.

Skerið baguette í þunnar sneiðar á ská. Ristið sneiðarnar í heitum ofni og snúið þeim við svo báðar hliðar taki lit. Látið sneiðarnar kólna áður en áleggið er sett á. Gott er að rista sneiðarnar með góðum fyrirvara. Eitt baguette er hægt að skera í um 30 sneiðar. Hér á eftir fylgja nokkrar hugmyndir að áleggi.

Mexikóostur, jarðarber og hunang

1 askja jarðarber

Hunang, best að nota fljótandi

75 g rjómaostur frá Gott í matinn

1 Mexíkóostur

Salt og chiliflögur

Ferskt basil

Skerið jarðarberin í fernt og mexíkóostinn í þunnar sneiðar. Smyrjið hverja sneið með rjómaosti og stráið örlítið af grófu salti og nokkrar chiliflögur yfir. Leggið sneiðar af mexikóosti ofan á og skreytið með dropa af hunangi, jarðarberjabita og basilblaði.

Piparostur, rjómaostur, grænar baunir og piparrót

1 piparostur

1 askja rjómaostur frá Gott í matinn

1 dl grænar baunir (gott að nota frosnar)

2 msk. piparrót

Steinselja

Valhnetur

Skerið piparostinn í þunnar sneiðar. Blandið um 150 g af rjómaosti saman við 1 dl af grænum baunum sem búið er hita aðeins. Kremjið vel saman. Bragðbætið með piparrót eftir smekk. Setjið sneið af piparosti á hverja brauðsneið og eina skeið af baunarjómaostinum yfir. Skreytið með steinselju og valhnetum.

Sætur rjómaostur og jarðarber

150 g rjómaostur frá Gott í matinn

1 – 2 msk. flórsykur

Jarðarber

Kanilsykur

Sitronmelissa eða mynta

Blandið saman rjómaosti og flórsykri. Skerið jarðarberin í bita. Smyrjið hvert brauð með rjómaostinum. Leggið jarðarber ofan á og stráið kanilsykri yfir. Skreytið með sítrónumelissu eða myntu og púðrið yfir með flórsykri.

Rúgbrauð (líka hægt að nota annað brauð eins og pólarkökur)

Notið lítið kringlótt mót og skerið út lítil brauð úr rúgbrauðinu. Hægt er að frysta brauðin þar til á að nota þau. Úr einni rúgbrauðssneið fást tvær kringlóttar litlar snittur. Hugmyndir að áleggi eru fyrir neðan.

Lax, smurostur með papriku og rauð hrogn

200 g reyktur lax

250 g smurostur með papriku

100 g rjómaostur frá Gott í matinn

1 krukka rauð hrogn

1 dós sýrður rjómi 18 % frá Gott í matinn

Steinselja

Skerið laxinn í sneiðar. Leggið sneiðarnar ofan á plastfilmu og látið sneiðarnar ná yfir hver aðra þannig að þær myndi eina lengju. Smyrjið lengjuna með paprikusmurostinn. Rúllið lengjuna þétt og varlega saman. Pakkið henni vel inn í plastfilmuna. Setjið lengjuna í frystinn. Þegar á að skreyta brauðin er laxalengjan tekin beint úr frystinum og skorin í mátulega bita. Smyrjið hverja brauðsneið með örlitlum rjómaosti. Setjið laxabita á hverja sneið. Ein lítil skeið af sýrðum rjóma er sett á hvern laxabita og svo er skreytt með rauðum hrognum og steinselju. 

Rjómaostur, bláber og apríkósumarmelaði

150 g rjómaostur frá Gott í matinn

2 dl bláber, frosin eða fersk

Aprikósumarmelaði

Þurrkuð bláber

Saltflögur

Tímian

Hrærið rjómaosti saman við bláber í fallegt blátt krem. Kryddið með örlitlu af saltflögum. Setjið teskeið af bláberjarjómaosti á hverja brauðsneið. Látið örlítið af aprískósumarmelaði ofan á og stráið nokkrum þurrkuðum bláberum yfir ásamt örlitlu tímian.

Gúrkubitar með laxahræru

2 gúrkur (15-30 gúrkusneiðar)

150 g reyktur lax

2 msk. majónes

2 msk. sýrður rjómi frá Gott í matinn

2 tsk. wasabikrem

1 tsk. smátt rifinn limebörkur

1 tsk. limesafi

Saltflögur

Svartur grófur pipar

Svört sesamfræ

Wasabihnetur t.d.

Skerið laxin í litla bita og blandið honum saman við majónes, sýrðum rjóma og wasabikrem. Skolið limeið og rífið börkinn af því smátt. Blandið berkinum saman við laxahræruna og smakkið til með örlítið af limesafa, salti og svörtum pipar.

Skerið gúrkurnar í bita og búið til litla holu í hverjum bita með t.d. teskeið. Setjið eina skeið af laxahrærunni í hverja holu. Skreytið með svörtum sesamfræjum. Það væri mjög smart að hafa skál með wasabihnetum til hliðar

Njótið vel!

Matarást,

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!