Theodóra J. Sigurðard. Blöndal
Ljúffengar og fallegar páskakökur
17. mars 2015

Ljúffengar og fallegar páskakökur

Er ekki kominn tími á eitt gómsætt „aðeins-köku-blogg“? Páskarnir að nálgast og svona, margir með matar- og kökuboð og hvernig væri þá að prufa einhverja - nú eða allar - af þessum þremur uppskriftum?Um leið og ég sé uppskrift sem inniheldur sítrónur fæ ég áhuga eins og skot - þær gefa bæði ferskt og frískandi bragð sem mér finnst alveg ómótstæðilegt í bakstri, eftirréttum og öllum mat. Þegar ég bjó í Ástralíu var ég með mitt eigið sítrónutré í garðinum og voru sítrónurnar að sjálfsögðu notaðar óspart í alls konar uppskriftir.

Að nota sítrusávexti í matargerð og bakstur gerir kraftaverk fyrir bragðið og það sama á við um þessar kökur. Það þarf ekki nema rétt að rífa örlítið af berki og setja í deigið og þú ert komin með köku sem segir ,,úllalaaa“!

Þessar kökur eiga það allar sameiginlegt að vera einfaldar og fljótlegar - og hver elskar það ekki?

Byrjum á svakalega góðri, einfaldri og fljótlegri sítrónuköku. 

Sítrónukaka - gómsæt, flauelsmjúk og mátulega blaut

200 g brætt smjör

3 egg

3 1/2 dl sykur

2 tsk vanillusykur eða dropar

3 dl hveiti

1 1/2 sítróna, börkur og safi

 

Ofnhiti: 175°C

Tími: 20-30 mínútur (fer eftir ofnum)

 

Stilltu hitann á ofninum.

Taktu til form, smyrðu það eða tylltu í það bökunarpappír.

Settu smjörið í pott og láttu það bráðna. Taktu það til hliðar.

Þvoðu sítrónuna, rífðu börkinn og kreistu safann.

Þeyttu egg og sykur létt og ljóst.

Blandaðu næst vanillu og hveiti saman við og síðan sítrónuberki og safa.

Síðast hellir þú smjörinu saman við deigið, hellir því í form og bakar kökuna.

Láttu hana kólna áður en þú stráir flórsykri yfir hana og berð fram.

Það er að sjálfsögðu ljómandi gott að bjóða upp á þeyttan rjóma með kökunni.

 

-----

 

 

Hvít súkkulaðikaka með bláberjum og lime

 

150-200 g hvítt súkkulaði

175 g smjör

3 egg

2 1/2  dl sykur

2 dl hveiti

2 - 3 dl frosin bláber eða bara eftir smekk

1 lime, börkurinn rifinn

 

Ofnhiti: 175°C

Tími: 25-30 mínútur

 

Byrjaðu á að finna til form. Smyrðu það og notaðu annaðhvort hveiti eða kókos til að dreifa í forminu. Ég nota oftast kókos - finnst það gefa gott bragð.

Bræddu smjörið og taktu það af hitanum. Brjóttu súkkulaðiplöturnar og settu þær í smjörið þar sem þær fá að bráðna rólega. Hrærðu þeim saman við smjörið.

Þeyttu egg og sykur þar til ljóst og létt. Hrærðu hveitinu saman við ásamt lime berkinum og síðast hellir þú smjör- og súkkulaðiblöndunni út í deigið og blandar því vel.

Helltu deiginu í formið og raðaðu bláberjunum yfir.

Bakaðu kökuna neðarlega í ofninum. Taktu hana út eftir uppgefinn tíma. Láttu hana standa aðeins áður en þú berð hana fram. Hún er líka ljómandi góð daginn eftir og þá er hún líka búin að taka sig vel.

 

-----

 

Appelsínu- og limebitar

Dúnmjúkir, ákaflega gómsætir og fallegir kökubitar - um 20 stykki

 

 250 g smjör

1 lime

1 appelsína

3 egg

3 1/2 dl sykur

2 tsk vanilludropar eða vanillusykur

2 1/2 dl hveiti

 

Ofnhiti: 150°C

Tími: 30-40 mínútur

 

Byrjaðu á því að finna bökunarform (ferkantað ef þú átt það). Smyrðu það eða klæddu það með bökunarpappír.

Smjörið er sett í pott og látið bráðna. Taktu það af hitanum og settu til hliðar.

Skolaðu lime-ið og appelsínuna, rífðu börkinn af báðum ávöxtunum og kreistu safann úr þeim.

Settu til hliðar.

Þeyttu egg, sykur og vanillu þar til ljóst og létt.

Hrærðu hveitið saman við.

Blandaðu smjörið saman við ásamt berkinum og safanum frá ávöxtunum.

Helltu deiginu í formið og bakaðu neðarlega í ofninum í 30-40 mínútur.

Láttu kökuna kólna í forminu.

Lyftu henni varlega upp úr forminu með því að kippa í bökunarpappírinn. Skerðu kökuna í fallega og frekar litla ferhyrninga og dustaðu vel af flórsykri yfir þá áður en þú berð þá fram.

Verði ykkur að góðu!
 

Matarást,

 

 

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!