Theodóra J. Sigurðard. Blöndal
Lax í kókossósu og frönsk súkkulaðikaka með silkimjúkri vanillukremsfyllingu
13. maí 2015

Lax í kókossósu og frönsk súkkulaðikaka með silkimjúkri vanillukremsfyllingu

Lax og kókós passar svakalega vel saman og svo er líka ofboðslega bragðgott að bæta sítrónugrasi saman við ef maður vill - sítrónugras er í miklu upppáhaldi hjá mér og gerir undraverk fyrir rétti af þessu tagi. Saxaðu það í þunnar sneiðar frá rótinni og notaðu allt í matinn. Afgangar af sítrónugrasi er upplagt að frysta og nota við önnur tækifæri.

Kryddaðu réttinn eftir þinni hentisemi. Byrjaðu smátt ef þú ert ekki hrifin/n af mjög sterkum mat og bættu meira við ef þú vilt. Þessi réttur er alveg kjörinn fyrir börn þar sem þau eru oftast nær mjög hrifin af kókósbragðinu.

Lax í kókóssósu með rauðu karrí og grænmeti

Rétturinn er fyrir 4-5

 

Hráefni:

500-700 g lax

1 gulur laukur, smátt saxaður

2 hvítlauksrif, smátt skorin

1 gulrót skorin í þunnar sneiðar

1 lítill bútur af engifer, skorinn smátt

2 stilkar sítrónugras, skorið smátt

1 rautt chili, smátt skorið

1 rauð paprikan smátt skorin

2 msk olía

1/2 lítri kókósmjók eða kókósrjómi eða matreiðslurjómi og kókósmjólk

1-2 grænmetis- eða fiskikraftsteningar

2 msk rautt karrípaste (eftir smekk)

1 msk karríduft

1 box sykurbaunir (sugarsnaps)

salt og pipar eftir smekk að smakka til

 

Saxað kóríander eða aðrar ferskar jurtir

 

Aðferð:

Skerið laxinn í 2-3 cm ræmur og setjið til hliðar.

Skerið hvítlauk, lauk, gulrót, engifer, sitrónugras, chili og papriku í litla bita.

Hitið olíuna á pönnu eða í góðum potti.

Setjið grænmetið á pönnuna og látið það svitna í olíunna í smá stund.

Hellið kókósmjólkinni yfir og bætið grænmetiskrafti saman við.

Hrærið saman við karrípaste og karríduft. Lækkið hitann og látið þetta sjóða á vægum hita í a.m.k. 15 mínútur. Smakkið. Sósan má alveg sjóða lengur - það dregur fram öll brögð því lengur sem sósan fær að malla.

Steikið laxabitana í olíu og smakkið til með salt og pipar. Setjið til hliðar.

Setjið sykurbaunirnar í kókóssósuna og smakkið til.

Leggið laxabitana varlega út í.

Það er kjörið að bera fram hrísgrjón með þessum rétti en einnig er hægt að bera hann fram eins og hann er. Skreytið með kóríander eða öðrum ferskum jurtum. 

 

 

Svo er það franska súkkulaðikakan ... namm! 

Alveg eins og konfektmoli og einföld að búa til sem ég elska mest af öllu! Súkkulaði, vanilla og smjör og ekkert of mikið af sykri sem gerir kökuna mjög ánægjulega. Kakan verður þá ekki dýsæt og fá hráefnin sem í henni eru að njóta sín algjörlega. Ekki búast við því að botninn verði eitthvað svakalega hár, en það er samt sem áður alveg hægt að skera hann í tvennt.

Vanillukremið er mjög einfalt og svakalega bragðgott  og upplagt að nota það í margar aðrar kökur. Hvers vegna ekki í rúllutertu sem dæmi?

Góða skemmtun!

 

Frönsk súkkulaðiterta með silkimjúkri vanillukremsfyllingu og súkkulaðiganache

 

Kökubotn:

150 g smjör, brætt

100 g suðusúkkulaði

3 msk kakóduft

4 egg

1 1/2 dl sykur

Örlítið salt

1 3/4 dl hveiti

 

Vanillukrem:

3 eggjarauður

1/2 dl rjómi

1/2 dl sykur

2 tsk vanillusykur

100 g smjör

 

Súkkulaðiganache:

100 g suðusúkkulaði

2 msk rjómi

 

Ofnhiti 175 °C  Tími: 30-40 mín, fer eftir ofnum.

Smyrjið bökunarform (18-23 cm) og stráið í það kókósmjöli eða hveiti.

 

Botninn:
Bræðið smjörið, takið það af hitanum og setjið súkkulaðiplötuna í smjörið. Látið hana bráðna og bætið við kakóduftinu. Blandið saman.

Þeytið egg og sykur. Hellið smjör- og súkkulaðiblöndunni saman við eggjaþeytinginn og hrærið varlega þannig að blandist vel.

Síðast er hveiti og salt hrært saman við.

Hellið deiginu í form og bakið neðarlega í ofninum.

Kælið kökuna vel (í frysti) áður en hún er skorin í tvennt.

Vanillukrem:
Setjið eggjarauður, rjóma, sykur og vanillusykur í pott. Látið suðuna koma upp og hrærið stöðugt í á meðan. Fylgist mjög vel með. Þegar blandan hefur þykknað þónokkuð er potturinn tekinn af hitanum og smjörið sett út í  og því hrært saman við. Setjið í kæli og látið þykkna aðeins meira.

Súkkulaðiganache:
Bræðið súkkulaðið í vatnsbaði og hrærið svo rjómann saman við. Látið kólna.

Samsetning:
Skerið botninn í tvennt.

Smyrjið vanillukremið yfir botnanna og setjið þá saman.

Hellið súkkulaðiganache-inu yfir kökuna og dreifið fallega yfir kökuna.

 

Skreytið með jarðaberjum, myntulaufum, hindberjum, bláberjum eða hverju því sem ykkur dettur í hug.

 

 

Njótið!

Matarást,

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!