Theodóra J. Sigurðard. Blöndal
Kardemommulengjur með eplafyllingu eða bara eplalengjur
31. ágúst 2015

Kardemommulengjur með eplafyllingu eða bara eplalengjur

Epli og haust haldast í hendur að mínu mati. Hvað er haustlegra en að nota epli í bakstrinum á þessum tíma? Eplakökur af alls kyns tagi, eplapæ í ýmsum útfærslum, eplamúffur, eplachutney, eplamarenskökur… og auðvitað eplalengjur.

Kardemommulengjur með eplafyllingu

Innihald:

6-7 dl hveiti

3 tsk þurrger

3 msk sykur

2 msk kardemommur, malaðar

1/2 tsk salt

2 dl volgt vatn

100 g brætt smjör

1 egg

 

Fylling:

50 g smjör

2 epli, afhýdd og skorin í þunna báta

100 g smátt saxað suðusúkkulaði

4-5 msk kanilsykur

 

Til að pensla:

1 egg

Perlusykur

 

Ofnhiti: 200 °C

 

Settu þurrefnin í skál

Blandaðu saman í lítilli skál: egg, vatn og brætt smjör.

Helltu eggjablönduninni út í þurrefnin og byrjaðu að hræra í deig. Ef það er of þurrt er í lagi að bæta aðeins við af volgu vatni - kannski 1/2 dl.  Bættu við hveiti eftir þörfum. Hnoðaðu þar til deigið er orðið gott og sleppir frá hliðum skálarinnar. Láttu það hefast á hlýjum stað þar til það er orðið rúmlega tvöfalt að stærð.  

Skiptu deiginu í tvennt, hnoðaðu það og flettu það út með kökukefli í langan, frekar mjóan ferhyrning. Það er gott að vera með bökunarpappír undir deiginu - þá er auðveldara að færa það yfir á ofnplötuna.

Smyrðu deigið í miðjunni með smjöri, stráðu aðeins af kanilsykri yfir smjörið og raðaðu svo eplum niður eftir smjörinu. Í hina lengjuna er tilvalið að setja epli og súkkulaði.

 

Klipptu í deigið á ská meðfram hliðunum á deiginu - klippt er u.þ.b. 2 cm.

Fléttaðu/leggðu flipana sem þú varst að klippa ská á móti hverjum öðrum og lokaðu þannig fléttunni þinni. Penslaðu hana síðan með þeyttu eggi og stráðu perlusykri yfir.

 

Bakaðu eplalengjuna neðarlega í ofninum í um 20 - 27 mínútur við 200°C.

Matarást,

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!