Theodóra J. Sigurðard. Blöndal
Kanilsnúðar
13. júní 2016

Kanilsnúðar

Ég verð að viðurkenna örlítið. Ég elska nýbakaða kanilsnúða mest af öllu. Og ég veit að ég var búin að sýna ykkur hvernig á að baka bæði smjörköku og fylltar snúðalengjur og en núna verð ég bara að sýna ykkur hvernig ég baka kanilsnúðana mína.

Það er nú bara þannig að fátt er dásamlegra en ilmurinn af nýbökuðum kanilsnúðum. Þegar ég baka snúðana geri ég alltaf tvöfalda uppskrift og set það sem ekki klárast í frystinn. Í uppskriftinni minni er notað smjör og nýmjólk en það er auðvitað ekkert mál að skipta á smjörinu og nota olíu og skipta á mjólkinni og nota t.d. sojamjólk.

Ég hef notað þessa uppskrift í mörg ár og að mínu mati er hún best. Það er mjög gott að vinna með deigið og það dugar líka í t.d. smjörköku eða tvær fallegar kanilfléttur. Uppskriftin sem hér fylgir er einföld og ég mæli auðvitað með að tvöfalda hana.

Kanilsnúðar

(u.þ.b. 40 stk.)

100 g smjör, brætt

5 dl mjólk

1 ½ dl sykur

1 msk kardemommuduft (eða eftir smekk)

2 tsk vanillusykur/vanilludropar

2 tsk þurrger

1 ½  tsk salt

12-14 dl hveiti

 

Fylling

200 g smjör við stofuhita

Kanilsykur

 

Pensling

1 egg (slegið saman með gaffli) eða mjólk

Perlusykur

 

Aðferð

Byrið á að bræða smjörið.

Bætið mjólkinni saman við og látið ná 37 °C  hita (ég sting litla fingur ofan í og ef blandan er mátulega volg og ég brenni mig ekki er hún í lagi).

Blandið saman rúmlega helming af hveitinu, sykri, salti, kardemommukryddi, þurrgeri og vanillusykri í skál. Notið matvinnsluvél, hrærivél eða sleif. Ég hnoða deigin mín ávallt í höndunum – en það gera allir sem þeim þykir best.

Hellið mjólkur- og smjörblöndunni saman við og hrærið. Bætið hveiti saman við eftir þörfum og hrærið áfram. Hnoðið í deig sem er létt, mjúkt og festist ekki við hliðar skálarinnar.

Látið deigið hefast þar til það er tvöfalt að stærð á hlýjum og notalegum stað.

Kveikið á ofninum og stillið hitann á 220°C.

Hnoðið deigið aðeins eftir hefingu. Skerið það í nokkra bita eða um fjóra til fimm.

Notið kökukefli og fletjið hvern bita út í stóran ferhyrning.

Smyrjið ferhyrninginn með smjöri og stráið kanilsykri yfir hann.

Rúllið deiginu saman og skerið rúlluna í sneiðar sem eru u.þ.b. 2-3 cm þykkar.

Setjið snúðana á ofnplötu með bökunarpappír eða notið pappírsform.

Látið snúðana hefast þar til þeir eru tvöfaldir að stærð á hlýjum og notalegum stað.

Penslið snúðana með eggi sem búið er að slá saman og stráið perlusykri yfir þá.

Bakið snúðana í 8 -12 mínútur eða þar til þeir hafa stækkað verulega og eru orðnir girnilegir og gullinbrúnir á litinn.

Að sjálfsögðu viljum við ískalda mjólk með snúðunum!

Verði ykkur að góðu!

 
Deigið skorið í fjóra jafn stóra bita. 
Fletjið deigið út í ferhyrning, smyrjið það með smjöri og kanilsykri.

 
Fletjið deigið út í ferhyrning, smyrjið það með smjöri og kanilsykri.

 

Setjið snúðana í pappírsform eða beint á ofnplötu með bökunarpappír.
Ilmandi, dásamlegir, bragðgóðir og mjúkir…


… með glasi af ískaldri mjólk.

 

Gangi ykkur vel og verði ykkur að góðu,

 

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!