Theodóra J. Sigurðard. Blöndal
Kanilbrauð og hnetusmjörskaka að hætti Teddu
13. júlí 2016

Kanilbrauð og hnetusmjörskaka að hætti Teddu

Vinkona mín bað mig um uppskrift að kanilbrauði sem ég bakaði oft handa börnunum í leikskólanum hér áður. Ég þurfti að hugsa mig aðeins um til að muna hvernig uppskriftin var en þetta brauð var mjög vinsælt hjá börnunum og ekki síður hjá stóra fólkinu.

Í þetta sinn dró ég fram járnpott og prufaði að baka hluta af brauðinu í honum. Brauðið úr pottinum var mjög safaríkt og fékk einstaklega skemmtilega harða skorpu. Prufið að nota pottinn ef þið eigið einn slíkan.

Að sjálfsgöðu man ég uppskriftina - hér er hún!

Kanilbrauð

Þessi uppskrift gerir 2-3 brauð eða um 16-20 bollur/lengjur

 

Innihald:

10-14 dl hveiti

1 msk kanill

2 tsk salt

3 tsk þurrger

örlítill sykur/púðursykur eða annað sætuefni ef þið viljið

75 g smjör brætt

1 dl skyr, sýrður rjómi eða súrmjólk

7 dl volgt vatn

 

Það er afar gott að bæta rúsínum í deigið.

  

Ofnhiti 220 °C

 

Blandið þurrefni saman í skál.

Bræðið smjör og blandið vatni og mjólkurvöru saman við.

Hellið vökvanum saman við þurrefnin og hrærið í gott deig. Bætið hveiti við eftir þörfum en deigið má alveg vera nokkuð blautt.

Látið deigið hefast á hlýjum og notalegum stað þar til það hefur tvöfaldast. Mér finnst gott að setja heitt vatn í vaskinn og láta skálina standa þar með deiginu og láta það hefast í góðum hita. Það gengur ögn hraðar fyrir sig.

Þegar deigið er búið að hefast er það tekið úr skálinni og hnoðað nokkuð vel og hveiti bætt við eftir þörfum.

Ef nota á járnpottinn er bökunarpappír settur í hann og u.þ.þ. 1/4 af deiginu sett í hann. Látið hefast þar til deigið hefur tvöfaldast.

Gerið bollur eða brauðlengjur úr afganginum af deiginu. Látið hefast.

Bakið brauðið neðarlega í ofninum í um 15 - 20 mínútur.

Brauðið sem er í pottinum á að baka með lokið á og það tekur um 30-35 mínútur að bakast. Það má alveg lækka hitann í 200 °C.

 

 

 

Það er alltaf til krukka af hnetusmjöri á mínu heimili. Hnetusmjör er hægt að nota í svo margt. T.d. í sósu með kjúklingi, í karamellusósu, á ristað brauð, í kókóskúlur eða í köku eins og í þess sem ég ætla gefa ykkur uppskrift að hér. Kökubotnin er mjúkur og inniheldur m.a. hnetusmjör og súkkulaðibita, ofan á er silkimjúkur glassúr sem salthnetum er stráð yfir í lokin.

Ég mæli að sjálfsögðu með glasi af ískaldri mjólk með kökunni. 

Verði ykkur að góðu!

Hnetusmjörskaka með súkkulaðiglassúr og salthnetum

1 dl púðursykur

1 dl sykur

200 g smjör

1 dl hnetusmjör

1 egg

3,5 dl hveiti

1 tsk matarsódi

100 g súkkulaði, dökkt, smátt skorið

 

Krem

100 g smjör brætt

100 g suðusúkkulaði

2 dl flórsykur

2 tsk vanilllusykur

1-2 dl salthnetur

 

 

Ofnhiti: 175 °C

 

Þeytið púðursykur, sykur, smjör og hnetusmjör vel saman. Bætið egginu við og þeytið áfram. Síðast er hveitinu hrært saman við sem búið er að bæta matarsóda við.

Hellið í form og bakið neðarlega í ofninum í 20-30 mínútur.

Látið kökuna kólna á meðan glasúrinn er búinn til.

 

Glassúr

Bræðið smjörið, bætið súkkulaðinu saman við og látið það bráðna í smjörinu.

Hrærið vanillu- og flórsykur saman við í krem og dreifið yfir kökuna.

Stráið salthnetum yfir. 

Verði ykkur að góðu!

Matarást,

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!