Theodóra J. Sigurðard. Blöndal
Jólalegt ris a la mande, ris a la malta eða riskrem?
10. desember 2014

Jólalegt ris a la mande, ris a la malta eða riskrem?

Mér datt allt í einu í hug þetta með ris a la mande. Alveg ómissandi að mínu mati um jólin. Ég bjó til og hannaði mitt eigið frábæra ris a la mande um daginn, en hver er svo sem að finna upp hjólið? Þetta hefur verið gert síðan um aldamótin 1900 í henni Danmörku þar sem yfirstéttinni datt í hug að punta þennan alþýðugraut og bæta við þeyttum rjóma, vanillu og möndluflögum þannig að úr varð þessi dásamlegi fíni sparigrautur sem við í dag njótum á jólunum. 

Ris a la mande heitir ris a la malta í Svíþjóð, riskrem í Noregi og hér hjá okkur er hann ris a la mande

Það er best að taka frá góðan tíma í að útbúa þennan rétt, allavega ekki vera að flýta sér - ég veit að okkur þykir brenndur grautur ekki góður og það er eiginlega ekki hægt að segja grjónunum að sjóða hraðar. Sjóðið grjónin endilega deginum áður eins og t.d. á Þorláksmessu. Ris a la mande má að mínu mati ekki vera of þykkt, það þarf að vera létt í sér og „flöffí“ eins og skýjabólstrar, hafa mátulega sætt bragð og svo verða grjónin að vera mjúk en samt pínu stökk undir tönn. 

                              

                                                             Með ávöxtum

Ég vil endilega láta ykkur fá dásemdaruppskriftina mína af þessum jólaeftirrétti. Með grautnum er hægt að bjóða upp á þá sósu sem við elskum mest t.d. berjasósu úr hindberjum, kirsuberjasósu, rjómasúkkulaðisósu, marssósu eða setja apelsínu- og mandarínubita út í grautinn. 

                   

                            Með hindberjasósu                          Með karamellusósu

Ris a la mande uppskrift fyrir 6-8 manns

Innihald:
2 1/2  dl grautargrjón
4 - 6 dl vatn
1 lítri mjólk til að byrja með
1 msk smjör
vanilludropar eftir smekk eða vanilllustöng
nokkur korn af salti
2 dl flórsykur
100 g hvítt súkkulaði (má alveg sleppa)
1/2 lítri þeyttur rjómi

Sjóðið grautargrjónin í vatni alveg sér. Lofið mér að nota þessi rúnnuðu grautargrjón ef þið hafið tök á, önnur grjón verða ekki eins. 

Þegar grjónin eru soðin takið þau af hitanum og setjið til hliðar. Hitið mjólkina, segjum einn lítra. Setjið góða smjörklípu ásamt smá skvettu af vanilludropum út í. Madagaskarvanilla er alveg einstök en Kötluvanilla er líka fín. Ef ykkur langar að nota vanillustangir mæli ég eindregið með því. Það er ekkert fallegra en að sjá þessu girnilegu litlu korn veltast um í grautnum. 

Það er líka hægt að setja kanilstangir í mjólkina. Auðvitað líka anis og kardemommukjarna. Setjið líka nokkrar matskeiðar af flórsykri í mjólkina og örlítið salt. Smakkið! Er þetta gott? 

Þegar mjólkin er orðin heit mokið þið grjónunum yfir í mjólkina og hrærið á meðan. Hellið meiri mjólk saman við ef ykkur finnst þurfa og bætið grjónum við þangað til að kominn er góður grautur. Með þessum hætti komið þið í veg fyrir bruna á grautnum sem er alveg frábært! Sérstaklega þegar maður hefur nóg annað að gera en að hreinsa potta og byrja upp á nýtt! 

Þegar grauturinn er tilbúinn er hvíta súkkulaðinu hrært saman við ef þið viljið nota það. Síðan þarf grauturinn að kólna - jafnvel fram á næsta dag. Áður en grauturinn er borinn fram er þeyttum rjóma bætt við og það þarf hræra hann varlega saman grautinn við ásamt flórsykri. Smakkið til og bætið við flórsykri eftir smekk. 

Hvaða sósu viljið þið bjóða upp á? 

Súkkulaðirjómasósa

1 peli rjómi
100 g mjólkursúkkulaði
100 g suðusúkkulaði

Hitið rjómann að suðu og látið súkkulaðið bráðna saman við. Þið getið líka bætt mars-súkkulaði við rjómann eða hverju öðru sem hugurinn girnist!

Ég mæli líka með því að bjóða upp á ávaxtasalat með ris a la mande  - það gefur ferskt bragð á meðan sætar sósur gera grautinn - já auðvitað - sykursætan!

Verði ykkur að góðu og gleðilega hátíð!

Matarást, Tedda 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!