Menu
Jólaleg ostakaka með piparkökubotni

Jólaleg ostakaka með piparkökubotni

Það er allt jólalegt við þessa ljúffengu og fallegu ostaköku og hentar hún fullkomlega á hvaða veisluborð sem er. Í henni er allt mögulegt jólalegt eins og t.d. piparkökur, mandarínur, hvítt súkkulaði og auðvitað kirsuberjasósa. Það er góð hugmynd að búa hana til deginum áður en á að bera hana fram.


Innihald

12 skammtar

Botn:

piparkökur (mega vera keyptar)
brætt smjör

Rjómaostakrem:

rjómi frá Gott í matinn, þeyttur
egg
sykur
rjómaostur frá Gott í matinn
hvítt súkkulaði, brætt
mandarínur, safi og hýði
gelatín blöð

Kirsuberjahlaup

kirsuberjasósa, 1 krukka (t.d. Den danske fabrik)
vanilludropar (1-2 tsk.)
gelatín blöð

Piparkökubotn

  • Finnið til form sem er hringlaga (um 22-24 cm). Gott er að setja plastfilmu yfir botninn á forminu og hliðarnar svo það verði einfalt að ná kökunni úr forminu.
  • Myljið piparkökurnar í matvinnsluvél og bræðið smjörið. Blandið smjörinu saman við piparkökumylsnuna.
  • Dreifið mylsnunni yfir botninn á forminu og þrýstið mylsnunni einnig eitthvað upp með hliðunum eins og hægt er.
  • Setjið botninn í kæli.

Ostakrem

  • Þeytið rjómann og setjið hann til hliðar. Þeytið egg og sykur þar til það er orðið létt og ljóst á litinn. Gott er að þeyta í svona 10 mínútur. Bætið rjómaostinum saman við og þeytið vel saman. Setjið fimm gelatín blöð í bleyti í kalt vatn og látið þau mýkjast í vatninu. Það getur tekið um 10 mínútur (gelatínblöðin eiga svo að bráðna í vatnsbaði með mandarínuhýði og safa).
  • Þvoið mandarínurnar í volgu vatni. Kreistið safann úr þeim og rífið hýðið af þeim. Setjið safann og hýðið saman í skál sem hægt er að setja yfir litinn pott. Best er að nota stálskál þar sem þannig skál leiðir hita mjög vel. Setjið vatn í pott (bara rétt í botninn) og látið suðuna koma upp. Setjið skálina með safa og hýði yfir pottinn (eins og lok), takið gelatínblöðin úr vatninu og setjið þau líka í skálina. Látið blöðin bráðna í skálinni. Fylgist vel með. Um leið og blöðin hafa bráðnað er þessi vökvi helltur rólega saman við ostakremið um leið og hrært er i kreminu.
  • Bræðið súkkulaðið annað hvort yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni. Blandið því rólega saman við ostakremið. Að lokum er rjóminn blandaður saman við ostakremið.
  • Hellið ostakreminu yfir piparkökubotninn. Kælið í 2-3 tíma. Þegar ostakremið er orðið stíft er kirsuberjahlaupið búið til.

Kirsuberjahlaup

  • Setjið fimm gelatín-blöð í kalt vatn og látið þau mýkjast í um 10 mínútur. Setjið vatn í lítinn pott og látið suðuna koma upp. Þegar gelatínblöðin eru orðin mjúk eru þau sett í litla skál ásamt vanilludropunum en best er að nota stálskál sem passar yfir pottinn. Skálinni er tyllt ofan á pottinn og blöðin látin bráðna í skálinni. Um leið og suðan er komin upp er gott að lækka hitann verulega.
  • Hellið kirsuberjasósunni í skál. Þegar blöðin hafa bráðnað er þeim hellt saman við kirsuberjasósuna um leið og hrært er í sósunni.
  • Hellið sósunni varlega (gott er að setja eina matskeið í einu) yfir ostakremið sem hefur stirðnað og dreifið aðeins úr kirsuberjunum svo þau liggi fallega yfir kökunni. Kælið í 1-2 klukkutíma.
  • Fjarlægið plastfilmuna varlega frá kökunni en það er gott að nota beittan hníf til þess. Auðvelt er að draga filmuna varlega undan botninum og færa kökuna yfir á fallegan disk. Skreytið ef vill með piparkökum.

Höfundur: Theodóra J. Sigurðardóttir Blöndal