Theodóra J. Sigurðard. Blöndal
Jólaleg ostakaka með piparkökubotni
12. desember 2018

Jólaleg ostakaka með piparkökubotni

Jólaostakaka með piparkökubotni, mandarínuostakremi og kirsuberjahlaupi

Það er allt jólalegt við þessa ljúffengu og fallegu ostaköku og hentar hún fullkomlega á hvaða veisluborð sem er. Í henni er allt mögulegt jólalegt eins og t.d. piparkökur, mandarínur, hvítt súkkulaði og auðvitað kirsuberjasósa.

Kakan tekur að vísu smá tíma að setja saman þar sem hún þarf að kælast inn á milli. En kakan er vel þess virði. Það er góð hugmynd að búa hana til deginum áður en á að bera hana fram. Sumum kann að finnast erfitt að nota gelatín, en með því að bræða það rólega yfir vatnsbaði og hella því svo saman við krem eða sósu og hræra rólega í á meðan ætti það að ganga vel. Ég mæli með að taka öll hráefni til sem þarf að nota. Egg, rjómi og rjómaostur fara betur í bakstur ef þau fá að standa frammi og ná herbergishita áður en þau eru notuð.

Gangi ykkur vel.

 

Botn

200 g piparkökur (ég notaði tilbúin piparköku hjörtu)

80 g brætt smjör

Rjómaostakrem

3 ½ dl rjómi frá Gott í matinn, þeyttur

2 egg

100 g sykur

250 g rjómaostur frá Gott í matinn

100 g hvítt súkkulaði, brætt

2 mandarínur, safi og hýði

5 gelatín blöð

Kirsuberjahlaup

360 g kirsuberjasósa, sem er 1 krukka (den danske fabrik)

1-2 tsk. vanilludropar

5 gelatín blöð

Piparkökubotn: Byrjið á botninum. Finnið til form sem er hringlaga (um 22-24 cm). Ég set plastfilmu yfir botninn á forminu og hliðarnar svo það verði einfalt að ná kökunni úr forminu. 

Myljið piparkökurnar í matvinnsluvél og bræðið smjörið. Blandið smjörinu saman við piparkökumylsnuna. Dreifið mylsnunni yfir botninn á forminu og þrýstið mylsnunni einnig eitthvað upp með hliðunum eins og hægt er. Setjið botninn í kæli.

 

Ostakrem: Næst er það ostakremið.

Þeytið rjómann og setjið hann til hliðar. Þeytið egg og sykur þar til það er orðið létt og ljóst á litinn. Gott er að þeyta í svona 10 mínútur. Bætið rjómaostinum saman við og þeytið vel saman. Setjið fimm gelatín blöð í bleyti í kalt vatn og látið þau mýkjast í vatninu. Það getur tekið um 10 mínútur (gelatínblöðin eiga svo að bráðna í vatnsbaði með mandarínuhýði og safa).

Þvoið mandarínurnar í volgu vatni. Kreistið safann úr þeim og rífið hýðið af þeim. Setjið safann og hýðið saman í skál sem hægt er að setja yfir litinn pott. Best er að nota stálskál þar sem þannig skál leiðir hita mjög vel. Setjið vatn í pott (bara rétt í botninn) og látið suðuna koma upp. Setjið skálina með safa og hýði yfir pottinn (eins og lok), takið gelatínblöðin úr vatninu og setjið þau líka í skálina. Látið blöðin bráðna í skálinni. Fylgist vel með. Um leið og blöðin hafa bráðnað er þessi vökvi helltur rólega saman við ostakremið um leið og hrært er i kreminu.

Bræðið súkkulaðið annað hvort yfir vatnsbaði eða í örbylgjuofni. Blandið því rólega saman við ostakremið. Að lokum er rjóminn blandaður saman við ostakremið.

Hellið ostakreminu yfir piparkökubotninn. Kælið í 2-3 tíma. Þegar ostakremið er orðið stíft er kirsuberjahlaupið búið til.

 

Kirsuberjahlaup: Setjið fimm gelatín-blöð í kalt vatn og látið þau mýkjast í um 10  mínútur. Setjið vatn í lítinn pott og látið suðuna koma upp. Þegar gelatínblöðin eru orðin mjúk eru þau sett í litla skál ásamt vanilludropunum en best er að nota stálskál sem passar yfir pottinn. Skálinni er tyllt ofan á pottinn og blöðin látin bráðna í skálinni. Um leið og suðan er komin upp er gott að lækka hitann verulega.

Hellið kirsuberjasósunni í skál. Þegar blöðin hafa bráðnað er þeim hellt saman við kirsuberjasósuna um leið og hrært er í sósunni.

Hellið sósunni varlega (gott er að setja eina matskeið í einu) yfir ostakremið sem hefur stirðnað og dreifið aðeins úr kirsuberjunum svo þau liggi fallega yfir kökunni. Kælið í 1-2 klukkutíma.

Fjarlægið plastfilmuna varlega frá kökunni en það er gott að nota beittan hníf til þess. Auðvelt er að draga filmuna varlega undan botninum og færa kökuna yfir á fallegan disk. Skreytið ef vill með piparkökum. 

Verði ykkar að góðu og njótið vel! Gleðilega hátíð!

Matarást,

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!