Theodóra J. Sigurðard. Blöndal
Hvað er í matinn? Smalabaka og súkkulaðibúðingur!
17. nóvember 2016

Hvað er í matinn? Smalabaka og súkkulaðibúðingur!

 

Þetta er svo sannarlega matur sem flest börn ættu að elska  (og líklega margir fullorðnir).

Smalabaka eða "Shepherd's pie" er ofnbakaður réttur sem samanstendur af kjöti og kartöflustöppu.

Í þessari uppskrift nota ég nautahakk sem ég steiki með lauk og bragðbæti með tómötum og hvítum  baunum – baunirnar eru reyndar tilefni til mikillar umræðu á mínu heimili. Þannig að lausnin hefur verið sú að ég dreifi baunum yfir helminginn af réttinum áður en ég set kartöflustöppuna yfir.

 

Kartöflustappan er gerð úr kartöflum (hér er líka hægt að nota kartöflur í bland við t.d. sætar kartöflur og gulrætur), smjöri, salt og smá sykur eftir smekk.

Í eftirrétt býð ég upp á heimalagaðan súkkulaðibúðing sem er svakalega gómsætur og einfaldur að búa til - uppskriftin er fyrir fjóra en á mínu heimili dugar hún fyrir tvo. Þarf ég að segja meira?

 

Smalabaka

(Fyrir 4-6)

 

Kjötsósa

600 g nautahakk

1 stór gulur laukur eða 2 litlir

2 pressuð hvítlauksrif

1-2 teningar af grænmetiskraft

2 dósir niðursoðnir tómatar

Salt eftir smekk

Svartur pipar eftir smekk

2 tsk.  Worchestershire sósa

Skvetta af tómatsósu

1 dós hvítar baunir í tómatsósu

100 g pipar-rjómaostur

1 poki rifinn mozzarellaostur

 

Skerið laukinn og steikið hann ásamt hvítlauknum upp úr olíu og smjöri.

Bætið við nautahakki og brúnið það ásamt lauknum.

Hellið tómötum saman við og hrærið. Lækkið hitann. Kryddið og smakkið til.

Bætið baunum við í lokin og hrærið.

 

Kartöflustappa

1 kg soðnar kartöflur (eða 4-5 bökunarkartöflur)

100 g smjör (eða eftir smekk)

Soðið vatn eftir smekk

Sykur og salt eftir smekk

 

Þvoið og sjóðið kartöflurnar.

Setjið þær í skál, flysjaðar eða ekki og bætið smjöri1 við ásamt salti og eitthvað af sykri.

Stappið með kartöflustappara eða hrærið í hrærivél.

Hellið smá af soðnu vatni saman við (ég nota soðið af kartöflunum) og hrærið í þar til stappan er mátulega þykk. Smakkið til.

 

 

Stillið ofnhitann á 180 °C

 

Dreifið kjötsósunni í ofnfast mót. 

Smyrjið karötflustöppuna yfir kjötsósuna. Það er fallegt að nota sprautupoka og gera fallegar ,,doppur“ með stöppunni.

Stráið rifnum mozarellaosti ásamt rjómapiparosti hér og þar yfir stöppuna. 

Bakið Smalabökuna í um 25-35 mínútur eða þar til osturinn er bráðnaður og stappan hefur fengið á sig smá lit. Gott er að hafa formið í miðjuna á ofninum.

 

---

Súkkulaðibúðingur

(Fyrir 4)

 

1 dl sykur

2 msk. kakóduft

1 msk. kartöflumjöl

2 msk. maizenamjöl

Salt á hnífsoddi

5 dl nýmjólk

50 g suðusúkkulaði

½ dl rjómi

1 tsk. vanilludropar

 

Mælið sykur, kakóduft, kartöflumjöl, maizenamjöl og salt og setjið í pott.

Hellið mjólkinni út í og hrærið saman við. 

Hitið varlega og þegar byrjar að sjóða lækkið þá hitann. Hrærið í allan tímann þar til blandan byrjar að þykkna verulega.

Takið af hitanum og setjið súkkulaði, rjóma og vanillu út í.

Hrærið þar til súkkulaðið hefur bráðnað.

Hellið í skálar og látið skálarnar í kæli í nokkrar klukkustundir áður en borið er fram.

 

Verði ykkur að góðu!

 

Matarást,

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!