Theodóra J. Sigurðard. Blöndal
Hunangsbrauð og hafrarúnstykki
30. ágúst 2018

Hunangsbrauð og hafrarúnstykki

Nýbakað á sunnudagsmorgni!

Ilmurinn af nýbökuðu brauði hefur þann eiginleika að gera mann bæði hamingjusaman og svangan. Það eru til ótal uppskriftir af brauðum en hér vil ég deila með ykkur tveimur sem ég hef verið að baka undanfarið. Annað er rúnstykki bökuð með haframjöli og sesamfræum og smakkast dásamlega nýbökuð með smjöri, osti og marmelaði.

Hunangsbrauðið er svakalega bragðgott, sérstaklega saðsamt og er líka einstaklega gott í magann. Það er mjög safaríkt, þétt í sér og heldur sér vel í rúmlega viku. Auðvelt er að breyta til og nota aðra þurrkaða ávexti en þá sem gefnir eru upp í uppskriftinni.  Þegar ég baka þetta brauð bý ég alltaf til tvöfalda uppskrift til þess að eiga nóg af því.

Hunangsbrauð með þurrkuðum ávöxtum 

3 dl haframjöl (gluteinlaust eða venjulegt)

1 dl chiafræ

2 dl byggmjöl

2 dl sólblómafræ

2 msk. sesamfræ

2 tsk. matarsódi

½ tsk. salt

150 g þurrkaðar döðlur

100 g þurrkaðar apríkósur

1 dl trönuber

70 g möndlur

1 stór dós hreint skyr frá MS (ég nota um 400 g)

3 msk. hunang

2 msk. síróp

1 dl sterkt kaffi (ég nota nescafé)

2 dl mjólk

Ofnhiti: 175 °C

Hitið ofninn.

Blandið saman haframjöl, chiafræ, byggmjöl, sólblómafræ, sesamfræ, matarsóda, salt, döðlur, möndlur (gott að skera þær smátt), apríkósur og trönuber í stóra skál. Í annarri skál er skyr, hunang, síróp, kaffi og mjólk hrært saman (vökvinn á að vera um 7 dl). Hellið vökvanum saman við þurrefnin og hrærið vel saman. Deigið verður nokkuð laust í sér en látið það standa í smástund (um 5-8 mínútur) og taka sig.

Setjið bökunarpappír í form (hringlaga virkar vel) og hellið deigið í formið. Bakið brauðið neðarlega í ofninum í um 50 mínútur. Skorpan á brauðinu verður frekar dökk. Eftir 50 mínútur er brauðið tekið úr ofninum og það látið kólna vel áður en það er skorið. Njótið vel.

Hafrarúnstykki

16-18 stk.

2 ½ dl vatn

1 dl haframjöl

2 ½ dl mjólk

2 msk. hunang

3 tsk. þurrger

100 g mjúkt smjör

2 tsk. salt

7-8 dl hveiti

3 dl heilhveiti

Pensl: 1 egg, sesamfræ og haframjöl

Ofnhiti: 225°C

Hellið vatni í pott, setjið haframjölið saman við og látið suðuna koma upp. Lækkið hitann og sjóðið saman í 2-3 mínútur. Takið pottinn af hitanum og hellið mjólkinni og hunanginu saman við. Látið blönduna kólna í um 37 ° sem er notalegur hiti.

Mælið um helminginn af hveitinu (3 dl heilhveiti ásamt 3 dl hveiti) og setjið í skál. Bætið þurrgeri saman við ásamt smjöri og salti. Gott er að mylja smjörið saman við hveitið. Hellið haframjölsblöndunni saman við hveitið og hrærið í svo smjörið blandast vel út í deigið. Bætið hveiti við eftir þörfum og hnoðið áfram þar til komið er gott deig sem gott er að hnoða og sem límist ekki við skálina né hliðarnar á henni. Látið deigið hvíla í skálinni, setjið klút yfir og látið deigið hefast þar til það er tvöfalt að stærð í um 40 mínútur. Passið að það sé hlýtt og notalegt þar sem skálin er geymd.

Veltið deiginu úr skálinni á borð. Stráið aðeins af hveiti yfir deigið og hnoðið það létt. Skiptið deiginu í tvo hluta. Rúllið hvern hluta í lengju og skerið hverja lengju í um átta deigbollur. Rúllið hverja bollu í litla lengju (10-14cm) og setjið hana á bökunarplötu með bökunarpappír. Látið brauðið hefast á plötunum í 15-25 mínútur. Penslið hvert rúnstykki með léttþeyttu eggi. Stráið sesamfræjum og haframjöli yfir hvert rúnstykki og bakið þau neðarlega í ofninum í 10-15 mínútur.

 

Njótið vel,

Matarást

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!