Theodóra J. Sigurðard. Blöndal
Hummus, houmus, baunakæfa eða baunadip…
27. maí 2016

Hummus, houmus, baunakæfa eða baunadip…

Houmus/hummus er eitt af þessum matarkyns hlutum sem kostar frekar mikið í búð en er mjög ódýrt að búa til sjálf/sjálfur. Og líka svo einfalt, fljótlegt og líka bara svo miklu miklu betra á bragðið.

Mér var eitt sinn sagt að hummus væri ekki hummus ef það væri ekki tahini (sesamsmjör) í því. Ég hins vegar sleppi því ef ég á það ekki til og það kemur alls ekki niður á bragðinu að mínu mati. Og eins og ég segi yfirleitt um uppskriftir – prufið og smakkið, hvað finnst ykkur best?

Það er reyndar hægt að nota ýmislegt í hummus. Ég nota einnig soðnar sætar kartöflur, soðnar rauðrófur, sólþurrkaða tómata, basil, myntu, kóriander…  Látið ímyndunaraflið njóta sín og leikið ykkur með spennandi hráefni!

Hér er tillaga mín fyrir hummus.

Þessi uppskrift dugar í eina stóra krukku – og smakkið til!

1 sítróna, safinn kreistur

½ dl ólífuolía eða önnur olía

Hvítlauksrif eftir smekk (ég nota 3-4 stk)

Steinselja (eftir smekk)

Spínatblöð (ein góð lúka)

Salt eftir smekk (þarf meira en minna)

Chiliflögur (nokkrar)

Kúmen malað (meira en minna)

2 dósir kjúklingabaunir (sigtaðar – en geymið vökvan)

Tahini (ef það er til) 2 msk

Örlítið vatn eftir þörfum

 

(Það þarf að nota matvinnsluvel eða töfrasprota til að mauka hummusinn)

Mér finnst gott að byrja að blanda olíu, sítrónusafa, salt, kúmen, steinselju og spínat fyrst.

Set allt í matvinnsluvélina og læt hana ganga smástund.

Bæti svo við kjúklingabaunum, einni dós í einu (ásamt Tahini ef þið notið það) og maukið vel á milli. Ef ykkur finnst hummusinn of þurr bætið þá örlitlu vatni saman við. Smakkið til. Kryddið meira ef ykkur finnst þurfa.

Látið matvinnsluvélina ganga þar til hummusinn ykkar er mjúkur og kremkenndur. Berið fram með góðu brauði, sem meðlæti með t.d. súpu eða salati eða bara nákvæmlega eins og ykkur hentar.

 

Verði  ykkur að góðu og njótið vel!

Matarást, 

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!