Theodóra J. Sigurðard. Blöndal
Horn með hvítu súkkulaðikremi og hindberjum
07. júní 2018

Horn með hvítu súkkulaðikremi og hindberjum

Stundum er notalegt að baka eitthvað sem þarf að dunda sér við – þannig er það einmitt með horn. Það er líka voða gaman að bjóða upp á horn, bæði eru þau falleg og girnileg og svo smakkast þau dásamlega, nýbökuð og enn heit með silkimjúkri fyllingu. Fyllingar í hornum geta verið svo spennandi  - skemmtilegt er að vinna með rjómaost sem fyllingu og nota hann t.d. alveg hreinan eða blanda honum með t.d. skinku og aspas, pizzukryddi, sultu eða súkkulaðikremi  - eða eins og hér í þessari uppskrift – blanda honum með ljúffengt súkkulaðismjörkrem og hindberjum. Ef notuð er fylling sem er ekki sæt, eins og t.d. rifinn ostur, óreganó og pizza sósu þá mæli ég með að sleppa vanillubragðinu í deiginu.

Hornin geymast vel í frysti en til að hressa upp á þau er upplagt að hita þau rétt aðeins í ofni og bera fram með rjúkandi heitum kaffibolla eða ískaldri mjólk.

Ég mæli eindregið með að tvöfalda uppskriftina.

Horn með súkkulaði-og hindberjafyllingu

3 tsk. þurrger

2 ½ dl mjólk

2 msk. sýrður rjómi 18 % frá Gott í matinn

1 dl síróp

2 egg

9 -10 dl hveiti

2 tsk. vanillusykur

Salt á hnífsodd

50 g mjúkt smjör

Fylling

50 g mjúkt smjör

2 msk. flórsykur

75 g hvítt súkkulaði

2 - 4 msk rjómaostur frá Gott í matinn

1 - 2 dl hindber

1 egg til að pensla hornin með

Glassúr: 3 dl flórsykur og 3-4 msk. vatn

Skraut: Flórsykur, hindber, sítrónu-melissa eða mynta.

 

Deig: Mælið um helminginn af hveitinu og setjið það í skál ásamt þurrgeri, salti, og vanillusykri. Hitið mjólkina í um 37 °C (má alveg vera aðeins heitari) og setjið hana til hliðar. Þeytið eggin létt saman með gaffli og blandið þeim saman við mjólkina ásamt smjörinu, sírópinu og sýrða rjómanum. Smjörið þarf alls ekki að bráðna í mjólkinni heldur er það einmitt mjög gott ef það gerir það ekki. Við það fást einmitt mýkri bollur. Hellið vökvann saman við hveitið og hrærið í deig. Bætið hveiti við eftir þörfum þar til deig hefur myndast og hnoðið það með léttar hendur þar til það er gott viðkomu. Setjið deigið í skál og látið það hefast á hlýjum stað í 30 mínútur.

Hnoðið deigið vel eftir að það er búið að hefast. Skiptið deiginu í tvennt og fletjið hvern hluta út í hring sem er um ½ cm þykkur, líklega um 25- 30 cm á breidd og sem hægt er að skera í 8 ,,pizzusneiðar“.

 

Krem: Blandið flórsykur og mjúkt smjör saman í skál. Bræðið súkkulaðið í vatnsbaði og blandið því saman við smjörið og flórsykrinum. Bætið rjómaostinum saman við og hrærið í þykkt krem.

Setjið hindberin í skál – ef notuð eru frosin hindber þarf að láta þau þiðna áður en þau eru sett í hornin.

 

Setjið eina tsk. af súkkulaðikreminu á breiðari endann af ,,pizzusneiðinni.“ Setjið eitt til tvö hindber ofan á kremið. Rúllið sneiðinni saman þannig að spíssinn endar undir horninu sjálfu. Gott er að þrýsta deiginu saman í kringum fyllinguna, þá er hættan minni á að fyllingin leki úr hornunum á meðan þau eru að bakast. Leggið hornið á bökunarplötu með bökunarpappír og togið aðeins í endana og leggið þá á móti hvort öðru þannig að það myndist sveigur á horninu.

Látið hornin hefast í um 30 - 40 mínútur. Penslið hornin með léttþeyttu eggi fyrir fallegan glans.  Stráið perlusykri yfir horninn og bakið þau neðarlega í ofninum í 13 – 17 mínútur á 220°C.

Þegar hornin hafa kólnað er glassúrinn hrærður saman og sprautaður yfir hornin. Fallegt er að strá flórsykri yfir hornin.

 

Njótið vel!

 

Matarást,

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!