Theodóra J. Sigurðard. Blöndal
Gulrótarsúpa og græn-ertu mauk (hummus)
29. janúar 2016

Gulrótarsúpa og græn-ertu mauk (hummus)

Fagurgul gulrótarsúpa á fallegum disk, hrökk-kex með ljósgrænu mauki úr grænum ertum. Alveg svakalega gott og alveg svakalega hollt. Líka ef rjómi er bættur út í súpuna -  eða kokósrjómi! Hvað finnst þér best? Súpan er líka alveg frábær eins og hún er. Ég lofa. 

Gulrótar- og vanillusúpa

fyrir 4-5

 

 

1 - 2 gulir laukar smátt skornir

Gulrætur - 1 poki frystar eða 1 poki ferskar

1 - 2 sætar kartöflur smátt skornar (eru fljótari að sjóða þannig)

1-3 hvítlauksrif (eftir smekk)

1-2 grænmetiskraftsteningar

Salt eftir smekk

Svartur pipar eftir smekk

Worchestershiresósa - skvetta

1 l vatn

Kreistur safi úr 1 appelsínu ásamt hýði - rifið

1-2 tsk vanilludropar eða vanillusykur

 

(Rjómi eftir smekk eða kókósmjólk 1/2 - 1 dós - ef þig langar - þarf ekki)

Kóríander eða steinselja eftir smekk.

 

Hitið olíu í pott, bætið laukinn saman við og svissið hann þar til hann er orðin glær.

Bætið gulrótum og kartöflum við og látið þær brúnast aðeins.

Kryddið með krafti, worchestershiresósu, salt og pipar og hellið vatni yfir. Það á að fljóta aðeins yfir þannig að bætið vatni við ef þarf.

Látið suðuna koma upp og sjóðið við vægan hita þar til gulrætur og kartöflur eru soðnar.

Notið töfrasprota eða setjið súpuna í matvinnsluvél og maukið hana.

Hellið súpunni aftur í pott og bætið núna appelsínusafanum, hýðinu og vanillunni saman við. Smakkið til og kryddið eftir smekk.

Ef þið viljið nota rjóma eða kókósmjólk þá er því hellt saman við núna.

Látið malla við vægan hita þar til súpan er borin fram.

Skreytið með kóríander eða steinselju og bjóðið upp á hrökk-kex með græn-ertu hoummus!

 

Hér kemur uppskriftin af því!

Græn-ertu hummus

 

1 poki af frystum grænum ertum

salt

pipar

kreistur sítrónusafi

ólífuolía

 

Byrjið á því að sjóða erturnar. Sigtið þær og látið kólna.

Setjið erturnar í matvinnsluvél eða notið töfrasprota og maukið þær hressilega þar til þær eru orðnar að mauki.

Smakkið til með salti, pipar, sítrónusafa og olíu.

Hér er líka hægt að bæta við örlitlum rjóma eða kókósrjóma til þess að fá aðeins meira mýkt í bragðið.

Verði ykkur að góðu!

Matarást, 

 

Viltu fylgjast með þessum bloggara?

Skráðu þig til að fá nýjustu færslurnar sendar!